Af og til síðustu árin hefur því verið haldið fram að ösp sé hættuleg mannvirkjum. Í júlímánuði var viðtal við Sigurð Helga Guðjónsson, formann Húseigendafélagsins, í morgunútvarpi Rásar 2 og kom þar fram að rætur aspa skemmdu eða eyðilegðu gangstéttar, slitlag vega, lagnir og hús, auk þess sem öspin „trylltist“ við þegar hún færi að drepast, við 40-50 ára aldur, og færi að skjóta rótarskotum í allar áttir.
Til að leita upplýsinga um þetta tjón sendi undirritaður byggingarfulltrúa Reykjavíkur, Magnúsi Sædal, erindi og óskaði eftir upplýsingum um umfang tjóns í Reykjavíkurborg. Spurt var sérstaklega um skemmdir af völdum aspa á gangstéttum eða hellum, malbiki götum eða vegum, lögnum, byggingum og dæmi um „árás“ aspa á umhverfi sitt.
Í svari Magnúsar kemur fram að engar formlegar kvartanir séu skráðar hjá embættinu vegna skemmda af völdum aspartrjáa á gangstéttum, hellulögnum, malbiki, götum eða vegum. Þó sé vitað að á stöku stað hafi trjárætur valdið lyftingu á gangstéttum og hellulögnum, en ekki sé þar sérstaklega um aspartré að ræða. Svipað gildi um lagnirnar, engar formlegar kvartanir hafi borist embættinu. Þó sé þekkt í einhverju tilviki að trjárætur hafi þrengt sér inn í holræsakerfi, en í í þeim tilvikum sé iðulega um bilaðar eða illa frágengnar lagnir að ræða. Í þessu tilviki virðist það hafa verið rætur af einhverjum runna sem fór í lögnina. Hafa verði í huga að lagnir eigi að liggja á frostfríu dýpi (en samkvæmt upplýsingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur eru raf- og hitaveitulagnir að öllu jöfnu lagðar á 70 cm dýpi og kaldavatnslagnir á minnst 120 cm dýpi]. Hjá byggingarfulltrúa eru ekki skráð dæmi um tjón á byggingum vegna trjágróðurs. Lauf og annað affall af trjám getur fallið á þök lægri bygginga, sest í þakrennur, stíflað niðurföll og valdið vatnstjóni, ef rennur eru ekki þrifnar. „Tryllingur“ fimmtugra aspa er óþekkt fyrirbæri. Taka má fram að samkvæmt erlendum heimildum geta aspir náð allt að 200 ára aldri.
Af svari byggingarfulltrúa Reykjavíkur má ráða að aspir hagi sér ekki öðruvísi en aðrar trjátegundir gagnvart híbýlum manna og götum. Við umræðu um trjárækt í okkar ágætu borg væri því heppilegra að beina umræðunni að mikilvægari atriðum, s.s. skjóli, skuggamyndun, rykmengun, útsýni og hljóðmengun.
Hvað skjólið varðar hefur ösp, vegna ýmissa flökkusagna um hana, verið felld í töluverðum mæli. Verði þetta ekki hamið er veruleg hætta á að í skjólsælum hverfum nái vindstrengir sér aftur á strik í þeim og afleiðingarnar verði aukið viðhald húsa og minni útivera í görðum og þar með minni lífsgæði. Hvort tveggja getur lækkað fasteignaverð.
Í þróun borgarinnar hefur þess lengst af verið gætt að mannvirki verði ekki mjög há. Við höfum fáa sólardaga og við viljum njóta þeirra allra. Þetta er skynsamlegt viðhorf íbúa á norðurslóðum þar sem skuggar geta orðið langir. Borið saman við aðrar þjóðir er ekkert tré orðið stórt á Íslandi, né gamalt, en þau verða það. Því er mikilvægt að skipuleggja gróðurinn þannig að skuggi verði sem minnstur af stórum trjám og það er vel hægt. Útsýni er flóknari hlutur að skipuleggja, fer eiginlega eftir við hvað maður er alin upp við eða er vanur. Að horfa út um glugga á tré er ákveðið útsýni, ef tréð er höggvið kemur í ljós hús sem er þá önnur gerð af útsýni, eða haf eða fjall eða eitthvað annað.
Einnig er vert að skoða áhrif trjágróðurs á hljóð- og loftmengun. Tré geta hafa veruleg áhrif á hvorutveggja. Tré geta, eftir hæð og þéttleika, dregið verulega úr hávaða og liggja fyrir mælingar á því. Einnig fanga þau rykagnir og binda koltvísýring (CO2). Því mætti skoða hvort ávinningur væri af því að láta gróðursetja verulegt magn krónumikilla trjáa í og við sem flest umferðarmannvirki og bifreiðaplön, en víða erlendis er markvisst verið að auka magn trjágróðurs í borgum vegna mengunarsjónarmiða.
Allar trjátegundir hafa sína kosti og galla við ræktun, sem og annar gróður, og er öspin þar engin undantekning. Það er hins vegar engin ástæða til að taka hana sérstaklega fyrir sem ógn við mannvirki hér í borg. Ætlum öspinni ekki meira en henni ber.
Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.