Út er komið á vegum EUFORGEN ítarlegt rit um val og meðferð erfðaefnis í plöntuframleiðslu. Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, er meðal höfunda. Ritið er byggt á þeirri sannfæringu að erfðaefnið sé grundvöllurinn að því að koma megi upp hraustum skógum sem geti staðist ógnir sem að þeim steðja og lagað sig að breytingum en um leið fóstrað þróun vistkerfa og treyst tilvist gjöfulla landsvæða. 

Brynjar Skúlason er aðalfulltrúi Íslands í þessu samstarfi Evrópulanda um vernd og nýtingu erfða­auðlinda skóga sem í daglegu tali gengur undir skammstöfuninni EUFORGEN. Hún stendur fyrir enska heitið European Forest Genetic Resources Programme. Meginmarkmið samstarfsins er að ýta undir varðveislu og sjálfbærar nytjar á erfðaauðlindum skóga í Evrópu sem órjúfanlegum þætti í sjálfbærri skógrækt og skógarnytjum. Einnig á samstarfið að vera vettvangur samstarfs milli Evrópulandanna á þessu sviði.

Markmiðunum á að ná með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með því að örva miðlun þekkingar og samtal við helstu hagaðila um erfðaauðlindir skóga í Evrópu. Í öðru lagi með því að stilla saman strengi í friðunarstarfinu og fylgjast með árangrinum. Í þriðja lagi með því að stuðla að skynsamlegri nýtingu á erfðaauðlindum skóga með því að búa til viðmið og leiðbeiningar um slíka verndun með vísindalega þekkingu að vopni.

Efni ritsins

Forsíða ritsinsRitið sem nú er komið út ber titilinn Genetic aspects linked to production and use of forest reproductive material. Þar er í fyrsta hlutanum samantekt um stöðu þekkingar á erfðamálefnum sem snerta framleiðslu og notkun á fjölgunarefni trjátegunda í Evrópu. Fjallað er um mismunandi flokka fjölgunarefnis svo sem fræ, stiklinga, vefjaræktarefni og svo framvegis og velt upp sjónarmiðum um val á stýrðri eða náttúrulegri endurnýjun skóga á tímum loftslagsbreytinga þar sem þörfin fyrir fjölgunarefni er snar þáttur.

Þá er í öðrum hluta ritsins tíundaður framleiðsluferill mismunandi fjölgunarefnis, hvernig grænt ljós er gefið á hvaða efni megi safna til fjölgunar, stjórnsýsla slíkra mála, söfnun og vottun efnisins, staðla um prófun og sýnatöku, áhrif fræs og ungplantna sem ekki eru ætlaðar sem fjölgunarefni á erfðaauðlindir skóga, áhrif kynbóta á efni sem er fyrir og á verndarþáttinn, söfnun, meðhöndlun og geymslu á fræi, aðferðir við plöntuframleiðslu, vottun og rekjanleika og loks um verslun með fjölgunarefni og flutninga á því.

Í þriðja hlutanum er fjölgunarefni skoðað með tilliti til aðferða við endurnýjun skóga með sérstöku tilliti til áhrifa loftslagsröskunar. Þar er sömuleiðis fjallað um þann möguleika að flýta fyrir flutningi trjátegunda á ný svæði með hlýnandi loftslagi. Fjórði hlutinn gefur  ítarlegt yfirlit um skógræktaraðferðir og í þeim fimmta er fjallað um mikilvægi þess að henda reiður á uppruna fjölgunarefnisins til að bæta ræktunar- og umhirðustarfið í skógunum og stjórn slíkra mála. Í lokakaflanum eru tíundaðar 38 ráðleggingar eða ályktanir sem dregnar eru af efni ritsins.

Ritið er afrakstur meira en tveggja áratuga alþjóðlegs samstarfs á vegum EUFORGEN. Það er byggt á þeirri sannfæringu að erfðaefnið sé grundvöllurinn að því að koma megi upp hraustum skógum sem geti staðist ógnir sem að þeim steðja og lagað sig að breytingum en um leið fóstrað þróun vistkerfa og treyst tilvist gjöfulla landsvæða.

 

Texti: Pétur Halldórsson