Fræðsluerindi Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) verður haldið mánudaginn 26. apríl kl. 17:00 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans, í stofu 132. Þá mun Þorbergur Hjalti Jónsson skógfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands halda erindi sem hann nefnir Af vistfræði birkis á Íslandi.


Íslenska birkið telst til afbrigðis ilmbjarkar sem nefnd er fjallabjörk (Betula pubescens Ehrh. var. pumila (L.) Govaerts) og myndar kjarrskóga á Grænlandi, Íslandi og við skógarmörk í Skandinavíu og á Kólaskaga í Rússlandi. Á Íslandi þekja birkiskóglendi um 1165 km2 (1,1% landsins) en um 38% landsins er innan áætlaðra hitamarka birkisins. Þrátt fyrir það er ósennilegt að birkiskógar og kjarr hafi þakið meira en fjórðung landsins fyrir landnám. Við bestu skilyrði á Íslandi og annar staðar við Norður- Atlantshaf verða fjallabjarkarskógar 8-10 m háir en stöku tré ná allt að 12-14 m. Á Íslandi er mestur hluti (um 80%) skóglendisins kjarr innan við 2 m hátt en utan Íslands er algengast að fjallabjarkarskógarnir séu 2-5 m háir. Þótt einkennilegt megi virðast er ekki samband milli meðalsumarhita og hæðarvaxtar birkis á Íslandi. Birkikjarr er einkennandi fyrir Suður- og Vesturland en hávaxnara birki er einkum í dölum á Norðausturlandi. Hæð birkiskógarins ræðst af þremur þáttum þ.e. vaxtarhraða, ævilengd og vaxtarlagi trjánna. Kjarrbirkið vex hægar, lifir skemur og er hlykkjóttara en birki í hávaxnari skógum. Í þessu erindi er fjallað um vaxtarvistfræði og endurnýjun birkiskóglenda á Íslandi og færð rök að því að skýringa á mismunandi hæð birkiskóganna sé fremur að leita í vaxtarskilyrðum svo sem jarðvegi og særoki en arfgerð og illri meðferð.

Aðgangur að fræðsluerindum HÍN er ókeypis og öllum heimill