Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri við undirritun samninga á Mógilsá í liðinni viku. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Tímamót hafa orðið í möguleikum einkafyrirtækja til aðgerða í loftslagsmálum með tilkomu Loftslagsskrár Íslands sem er eins konar kauphöll fyrir kolefniseiningar. Eignarhaldsfélagið Festi hf. hefur riðið á vaðið og skráð fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefnið í Loftslagsskrá samkvæmt gæðakerfinu Skógarkolefni. Í síðustu viku var skrifað undir samninga á Mógilsá, m.a. verksamning við Skógræktina um ráðgjöf og eftirlit með kolefnisskógrækt Festi hf. að Fjarðarhorni í Hrútafirði sem verður fyrsta verkefni íslensks fyrirtækis af þessum toga. Áhugi á vottaðri kolefnisjöfnun meðal fyrirtækja, segir skógræktarstjóri.
Þetta er fyrsta verkefnið sem unnið er samkvæmt áðurnefndu gæðakerfi, Skógarkolefni, sem Skógræktin hefur þróað að erlendri fyrirmynd. Óháð vottunarstofa vottar að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Með þessu stígur Festi hf. mikilvægt skref til ábyrgrar kolefnisjöfnunar hérlendis að mati Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra. Það sé í samræmi við álit Loftslagsráðs frá síðasta ári um að ábyrg kolefnisjöfnun sé mikilvægur þáttur í heildstæðri loftslagsstefnu og hluti af vegferðinni að kolefnishlutleysi.
„Nú er loksins í boði vottuð kolefnisjöfnun á Íslandi og óskum við Festi til hamingju með fyrstu skrefin. Kolefnisbindingarverkefni Festi er í samræmi við álit Loftslagsráðs þar sem áréttað var mikilvægi ábyrgrar kolefnisjöfnunar og heildstæðrar loftslagsstefnu. Til að tryggja rekjanleika og gagnsæi mun óháð vottunarstofa sjá um að staðfesta að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Þegar binding verður raunveruleg og nýta á árangurinn til kolefnisjöfnunar verður það gert með afskráningu kolefniseininga í Loftslagsskrá. Það er afar ánægjulegt að við hjá Skógræktinni höfum fundið fyrir auknum áhuga á vottaðri kolefnisjöfnun meðal íslenskra og erlendra fyrirtækja sem sjá hag sinn í því að kolefnisjafna sinn rekstur með nýskógrækt hér á landi og er Skógarkolefni því okkar svar við því ákalli,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
- Fyrsta vottaða bindingarverkefnið sem skráð er í Loftslagsskrá Íslands eftir gæðakerfinu Skógarkolefni
- Bindur alla losun Festi hf. og dótturfélaga næstu 50 árin, 90.000 t. CO2
- Hálf milljón trjáplantna í vottaðri nýskógrækt
- Ábyrg kolefnisjöfnun í samræmi við álit Loftslagsráðs
- Tímamótafrumkvæði íslensks fyrirtækis í baráttu við loftslagsógnina
|
Kolefni verður bundið með nýskógrækt á jörðinni Fjarðarhorni í Hrútafirði sem er í eigu Festi. Gróðursett verður a.m.k. hálf milljón trjáplantna og áætluð kolefnisbinding næstu 50 árin verður um 90.000 tonn af CO2, meira en áætluð losun Festi hf. og dótturfélaga á tímabilinu. Dótturfélög Festi hf. eru Bakkinn vöruhótel, ELKO, Krónan og N1. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi hf., segir að með þessu sé fyrirtækið að stíga stórt skref í umhverfismálum. Aðgerðin skipti verulegu máli í stóra samhenginu og sé jafnframt mælanleg og sýnileg. Rætt er við hann í Viðskiptablaðinu í dag.
Loftslagsskrá Íslands gerir kleift að skrá vottaðar kolefniseiningar hérlendis. Þar fást aðeins skráðar aðgerðir sem unnar eru eftir viðurkenndu gæðakerfi. Skógarkolefni er þess konar gæðakerfi, ætlað fyrir bindingarverkefni með nýskógrækt. Með tilkomu Skógarkolefnis og Loftslagsskrár Íslands opnast ný tækifæri til ábyrgra skrefa í umhverfismálum. Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, fagnar því í fréttatilkynningu frá Festi að fyrsta verkefnið skuli vera komið af stað. Nú séu innviðir tilbúnir og þeim fylgi hvati fyrir einkaframtak í loftslagsmálum.
Nánari upplýsingar og tengiliðir: