Græni múrinn mikli á að teygja sig um ellefu lönd sunnan Sahara-eyðimerkurinnar og vernda þau gegn ó…
Græni múrinn mikli á að teygja sig um ellefu lönd sunnan Sahara-eyðimerkurinnar og vernda þau gegn ógnum eyðimerkurinnar og loftslagsbreytinga. Gróskan sem fylgir auknum skógi og öðrum gróðri stuðlar að betri búsetuskilyrðum, auknu matvælaöryggi, fleiri störfum og bættum efnahag. Mynd: infocongo.org

Afríski þróunarbankinn hefur tryggt 6,5 milljarða Bandaríkjadollara næstu fimm árin sem renna munu í eitt stærsta umhverfisverkefni Afríku, græna múrinn mikla sem verið er að rækta yfir þvera álfuna sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Talað er um múrinn sem gróandi veraldarundur og að hann verði stærsta lifandi fyrirbæri jarðarinnar.

Merki afríska þróunarbankansFrá þessari nýju fjármögnun var greint í gær í fréttatilkynningu frá afríska þróunarbankanum, African Development Bank Group. Bankinn upplýsti fyrst um framlagið á málstofu sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Karl Bretaprins efndu til í tengslum við ráðstefnu One Planet Summit um líffjölbreytni sem nú stendur yfir í París. Þeir félagar eru frumkvöðlar og verndarar þessarar ráðstefnu sem fram fer árlega.

Ræktun gegn landflótta

Fjármagnið nýja verður aðgengilegt í gegnum ýmsar áætlanir sem styðja við ræktun græna múrsins mikla. Byggt er á bæði innri fjármögnun og utanaðkomandi uppsprettum fjármagns svo sem frá afríska orkusjálfbærnisjóðnum Sustainable Energy Fund for Africa (SEFA), græna loftslagssjóðnum Green Climate Fund (GCF) og fleirum.

Fjölþjóðlegir þróunaraðilar gengu til liðs við bankann og lofuðu fjármagni til þessa mikla verkefnis sem Afríkuþjóðir stýra. Markmiðið er að endurhæfa vistkerfi á svæðum sem eyðimörkin mikla hefur verið að seilast inn á. Með því móti er hægt að treysta afkomu og fæðuöryggi íbúanna, hamla gegn eyðimerkurmyndun og búa trygga framtíð, störf og tekjur fyrir milljónir Afríkubúa á svokölluðu Sahel-svæði sunnan Sahara. Það nær allt frá Senegal í vestri til Djíbútís í austri. Ef ekki væri gripið til slíkra aðgerða blasti fátt annað við íbúunum en landflótti.

Myndband um verkefnið græna múrinn mikla í Afríku.

Grænan vöxt í stað eyðandi vaxtar

Í fréttatilkynningu afríska þróunarbankans er haft eftir bankastjóranum Akinwumi Adesina að samhliða því sem heimsbyggðin réttir úr kútnum eftir kórónaveirufaraldurinn verði að skilgreina hugtakið vöxt upp á nýtt. Setja verði í forgang þann vöxt sem stuðlar að vernd náttúrugæða og líffjölbreytni í staðinn fyrir hefðbundinn vöxt sem gengur á sameiginleg gæði okkar.

Adesina tók þátt í fundinum með rafrænum hætti frá Abidjan, viðskiptahöfuðborg Fílabeinsstrandarinnar. Hann lýsti græna múrnum mikla sem umhverfislegu varnarkerfi Afríku. Múrinn yrði skjól fyrir ógnum rofafla og eyðimerkurmyndunar. Framtíð Sahel-svæðisins í Afríku stæði og félli með því að þessi græni múr yrði reistur. Án hans gæti Sahel-svæðið breyst í auðn.

Loftslagsbreytingar hafa valdið því að ógnarhiti er orðinn algengari á Sahel-svæðinu, úrkoma óreglulegri og þurrkar skæðari. Þarna búa um 250 milljónir manna í tíu þjóðlöndum. Verði ekkert að gert má búast við því að árangur margvíslegra þróunarverkefna verði að engu og milljónir manna missi viðurværi sitt.

Aðstandendur græna múrsins mikla segja að hann verði stærsta lifandi fyrirbæri á jörðinni, þrefalt stærri en kóralrifið mikla við Ástralíu. Hann verði nýtt undur veraldarinnar. Mynd: The Great Green WallGræni múrinn mikli er skógarbelti sem á að teygja sig um átta þúsund kílómetra leið þvert yfir Afríku og hann verður að jafnaði um 15 kílómetra breiður. Á þessu belti verður blönduð ræktun með skóglendi, graslendi, og öðru gróðurlendi. Hugmyndin er sú að út þetta belti hafi áhrif í báðar áttir og hjálpi íbúum að stuðla að nægu fæðuframboði, atvinnutækifærum og ekki síður að bætt búsetuskilyrði stuðli að friði á svæðinu. Aðstandendur verkefnisins orða það sem svo að þarna sé að vaxa nýtt undur veraldarinnar og þetta verði stærsta lifandi fyrirbæri í heiminum. Trén í beltinu veita skjól, binda og auðga jarðveg, búa til mat og ýmsar afurðir, efla aðra ræktunarmöguleika og þannig mætti áfram telja.

Adesina bankastjóri segir að græni múrinn mikli sé sannarlega fyrirhafnarinnar virði. Þetta sé múr sem sameini fólk en sundri ekki, múr sem verndi fólk en einangri það ekki hvað frá öðru, múr fyrir umhverfið, múr fyrir jörðina.

Stærsta sólarorkuver heims

Fjárskortur hefur verið helsti þrándur í götu þessa verkefnis hingað til. Markið var sett á að skapa 10 milljónir starfa, binda 250 milljónir tonna af koltvísýringi og endurhæfa 100 milljónir hektara af rofnu landi í löndunum ellefu á Sahel-svæðinu. Nú hefur afríski þróunarbankinn sett Sahel-svæðið efst á forgangslistann fyrir fjárfestingar og leit að nýjum fjármögnunarleiðum til að þoka afrískum loftslagsverkefnum áfram. Dæmi um þetta er orkuverkefni bankans í eyðimörkum, Desert-to-Power. Þar á að reisa stærsta sólarorkuver í heimi.

Þetta stóra orkuverkefni á að sjá 250 milljónum manns í Sahel-löndunum ellefu fyrir rafmagni og sömuleiðis að styðja við ræktun á græna múrnum mikla. Á næstu fimm árum er áætlað að Desert-to-Power geti veitt 2 milljarða Bandaríkjadollara í skilgreind framfaraverkefni í tengslum við græna múrinn mikla.

Merki samtaka Sahel-ríkja um græna múrinn mikla, Panafrican Agency of the Great Green WallFátækt og allsleysi hefur hingað til gert hagkerfum á þessu svæði erfitt fyrir að laga sig að afleiðingum loftslagsbreytinga. Þar liggur ein stærsta hindrun Sahel-svæðisins til framfara. Global Center on Adaptation (GCA) er alþjóðleg stofnun með höfuðstöðvar í Hollandi sem nú hefur opnað deild í Afríku. Með verkefnum hennar í samvinnu við afríska þróunarbankann á að freista þess að skera á þennan fátæktarhnút og liðka fyrir fjármögnun og fjárfestingum í verkefnum sem stuðla að aðlögun samfélaganna að þessum breytingum sem nú eru í gangi.

Stofnun deildar GCA í Afríku er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að hraða á og efla aðgerðir til að berjast við þríþættan vanda hnignandi líffjölbreytni, landeyðingar og aðlögunar að loftslagsbreytingum í álfunni, að sögn Kevins Kariukis aðstoðarbankastjóra sem höndlar með orkumál, loftslagsmál og grænan vöxt.

Í fréttatilkynningu bankans er líka minnst á annað frumkvöðlaverkefni hans sem geti þokað Sahel-svæðinu í átt til þess að verða land tækifæranna í grænum vexti. Það kallast á ensku Technologies for African Agricultural Transformation (TAAT). Því er ætlað að auka fæðuframleiðslu í Afríku um 100 milljónir tonna og lyfta 40 milljónum manna úr fátækt á næstu fimm árum.  Aðferðin er sú að nýta öflugar og reyndar tæknilausnir sem aukið geta framleiðni, dregið úr áhættu og stuðlað að aukinni fjölbreytni og úrvinnslu afurða. Sem dæmi um verkefni sem TAAT hefur stutt við eru hitaþolin yrki af maís sem bændur í Súdan hafa fengið til ræktunar.

Macron Frakklandsforseti og Adesina, bankastjóri afríska þróunarbankans, tala á One Planet Summit ráðstefnunni í París þar sem fjallað er um líffjölbreytileika í heiminum. Mynd af vef afríska þróunarbankans, afdb.org

Meistari múrsins

Á málstofunni í París útnefndi Macron Frakklandsforseti bankastjórann Adesina meistara græna múrsins mikla og lofaði hann fyrir framlag sitt og eindrægni í þágu málstaðarins. Með starfi sínu hefði Adesina gert starf bankastjóra afríska þróunarbankans að mikilvægu forystuafli í að afla stuðnings stjórnmálafólks og viðskiptalífsins við framgang þessa mikilvæga verkefnis.

Tilkynnt var líka um framlag frá evrópska fjárfestingabankanum, European Investment Bank, sem metið er á einn milljarð evra á formi nýrrar fjármögnunar og tæknilegrar aðstoðar sem nýtast mun til að styðja við sjálfbæran landbúnað, hreina orkutækni, vatnsöflun, uppbyggingu og fjármögnun einkageirans í Sahel-löndunum ellefu. Einnig barst loforð um 600 milljónir evra frá frönsku þróunarstofnuninni Agence française de développement.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: APO Group fyrir hönd afríska þróunarbankans