Skógarviðburðir undir merkinu „Líf í lundi“ verða í átta skógum á landinu laugardaginn 20. júní og finna má upplýsingar á Nánar á Skógargáttinni, skogargatt.is. Listinn er styttri í ár en venjulega vegna kórónuveirunnar en fólk er hvatt til að nýta þjóðskógana og aðra skóga landsins til útiveru þennan dag, auk viðburðanna sem í boði eru.

„Líf í lundi“ er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarinnar og Landssamtaka skógareigenda. Markmiðið er að hvetja fólk til að efna til viðburða í skógum landsins. Þetta er sami dagurinn og Skógardagurinn mikli á Hallormsstað hefur verið haldinn um árabil en eins og fleiri fjöldasamkomur var honum frestað til næsta árs að þessu sinni. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að sækja þjóðskógana heim þennan dag sem aðra daga. Þá eru skógar skógræktarfélaganna líka öllum opnir og fleiri skógar og skógarreitir um allt land.

Viðburðirnir sem auglýstir eru á Skógargáttinni eru fjölskyldudagur í Höfðaskógi Hafnarfirði, ratleikur í Smalaholti Garðabæ, skógarganga í Æsustaðahlíð Mosfellsbæ, „Gaman á Gunnfríðarstöðum“ hjá Skógræktarfélagi Austur- Húnvetninga á Bakásum, samvera í Seljadalsskógi Bíldudal, skógardagur í Slögu við Akranes, opnunarhátíð á „Opnum skógi“ í Álfholtsskógi Hvalfjarðarsveit og fræðsluganga á nýju svæði Skógræktarfélags Eskifjarðar.

#lifilundi