Austurlandsskógar eru þjónustuaðili sem sér um gerð samninga við bændur og veitir framlög til þeirra en 16 jarðeigendur hafa gert samninga við Austurlandsskóga síðan þeir voru settir af stað árið 2001.  Bændurnir sjá sjálfir um framkvæmdir en framkvæmdaþættirnir skiptast í skjólbeltarækt og skógrækt.
Það eru um 60 jarðir á starfssvæði Austurlandsskóga á biðlista um að gera samninga um skógræktarframkvæmdir.

Gróðursetning
Á árinu 2003 voru gróðursettar samtals 143.664 plöntur á 13 jörðum.  Stærsti hlutinn var vorgróðursetning samtals 112.601 plöntur.
Mest var gróðursett af lerki 30% og furu 24%.

Skjólbelti
Það voru 4 jarðir sem settu ný skjólbelti samtals 5,2 km.

Girðingar
Á flestum þeim svæðum sem skógrækt verður stunduð er jafnframt mikil búfjárrækt.  Nauðsynlegt er að girða af verðandi skógarsvæði og friða fyrir beit og því eru girðingar hluti af skógræktarátakinu.  Reynt verður eftir megni að girða stofngirðingar um stærri samfelld skógarsvæði og hafa stjórn á beit innan þeirra.  Á árinu var greitt girðingarfarmlag til 9 jarða, á samtals 543 ha. skógræktarsvæði.  Í sumum tilvikum er um að ræða eldri girðingar sem ekki hefur verið unnt að styrkja áður.  Í flestum tilvikum eru girtar rafgirðingar.

Kortlagðir 230 ha. 
Það hafa verið gerðar ræktunaráætlanir fyrir 7 jarðir á þessu ári.  Ræktunaráætlunin inniheldur nákvæmt skipulag ræktunarinnar.  Út frá gróðurfarsgreiningu og öðrum umhverfisþáttum er gerð tillaga að vali trjátegunda í skógræktarsvæðið.  Einnig er gerð tillaga að undirbúningi lands s.s. jarðvinnslu eða landgræðslu.