Ég rakst nýlega á gamla ræðu Gunnars heitins Thoroddsen, þáverandi borgarstjóra, þegar ég var að fletta riti Illuga Jökulssonar. Í ræðunni, sem flutt var á Arnarhóli 17. júní 1951, lýsir borgarstjóri því hvernig hann sér fyrir sér höfuðborgina eftir hálfa öld, þ.e.a.s. um nýliðin aldamót. Flest virðist hafa gengið eftir, nema hugsanlega sá stórfelldi gjaldeyrissparnaður sem hann spáir af gagnviðarframleiðslu í Heiðmörk. En jafnvel það mál horfir nú til bóta eftir að Helgi Gíslason, Herdís Friðriksdóttir og Ólafur E. Ólafsson (Óli finnski) eru tekin við rekstri og umsjón Heðmerkur. Hver veit nema spáin rætist áður en langt um líður
kv, Aðalsteinn

?Fagur trjágróður, hár, glæstur og gagnlegur, mun prýða þessa borg víðs vegar. Heiðmörk, hið mikla framtíðar friðland og borgargarður, sem er tíu sinnum stærri að víðáttu en öll Reykjavík innan Hringbrautar og Snorrabrautar, verður þá vaxin fögrum gagnviði. Heiðmörk verður þá alklædd skógi með 9-10 milljónum plantna, sem gefa af sér 3-4000 teningsmetra af viði árlega, til stórfellds gjarldeyrissparnaðar fyrir þjóðina.

Melar og hrjósturlendur í Reykjavík og nágrenni hennar verða grædd upp, ræktuð grasi, lyngi og skógi, m.a. fyrir atbeina áburðarverksmiðju og sorpvinnslustöðvar, sem mun framleiða áburð til uppfyllingar og gróðurs. Öskjuhlíðin, sem staðið hefur síðan fyrir landnámstíð beinaber, með brjóstin visin og fölar kinnar, hefur þá öðlast fegurð lífs og gróðurs, innan um fagrar klappir og sögulegt Beneventum.

Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri Reykjavíkur, í ávarpi á Arnarhóli þann 17. júní 1951