Nú í byrjun maí var haldin í Fairbanks í Alaska alþjóðleg ráðstefna samtaka skógvísindamanna frá löndum innan barrskógarbeltisins; International Boreal Forest Research Assiociation (IBFRA). Svo sem kunnugt er, tilheyrir láglendi Íslands barrskógabeltinu og þar mætti sem fulltrúi Íslendinga Tumi Traustason, doktorsnemi í skógvistfræði við Alaskaháskóla í Fairbanks, og sendi hann meðfylgjandi pistil af ráðstefnunni. Yfirskrift ráðstefnunar að þessu sinni var ?samspil loftlagsbreytinga og raskana í norðlægum skógarvistkerfum?. 

Á ráðstefunni voru saman komnir margir af fremstu vísindamönnum á sviði loftlagsbreytinga, skógfræði og skógarvistfræði frá Norður Ameríku, Norðurlöndum, Rússlandi og Asíu.  Veðurfar ráðstefnudagana var var í samræmi við yfirskrift hennar, um 20 stiga hiti og tré nær allaufguð, tveimur vikum fyrr en venju ber til.  Markmið ráðstefnunnar var í senn að kynna nýjar niðurstöður rannsókna og að auka samvinnu þeirra vísindamanna sem starfa í barrskógabeltinu.

Miklar rannsóknir hafa farið fram að undanförnu á því hvernig loftslag er þegar tekið að breytast á norðurslóðum, gróðurfarsbreytingar af þeirra völdum og ekki síst hvaða breytingar eru gætu verið vændum.  Þetta er sérlega þýðingarmikið svið þar sem um þriðjungur alls kolefnis sem bundinn er í gróðri á hnettinum má finna í skógum barrskógabeltisins.  Því til viðbótar er gríðarlegt magn kolefnis bundið í mó í freðmýrum á norðurhjara.

Gróðurfar á norðlægum slóðum mótast ekki aðeins af veðurfari, heldur er um að ræða samspil þar sem skógarvistkerfi eru líkleg til að hafa bein, hnattræn áhrif á veðurfar.  Skógar geta bundið kolefni og þar með dregið úr hraða hlýnunar loftlags. Einnig getur hið mikla magn kolefnis sem bundið er í norðlægum skógarvistkerfum losnað úr læðingi og þar með ýtt undir frekari hlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa.
 
Hækkandi hitastig leiðir til þess að þurrkar verða þrálátari og tíðari.  Auknir þurrkar auka hættu á skógareldum, en með þeim losnar gríðarlegt magn koltvíoxíðs út í andrúmsloftið.  Þegar sífreri bráðnar eykst niðurbrot lífræns efnis sem veldur losun bæði koltvíoxið og metans.  Merki um hvort tveggja eru þegar farin að sjást; sífreri er tekinn að bráðna inn til landsins í Alaska og árlegt flatarmál skógarelda í Kanada hefur nær tvöfaldast á seinustu áratugum.  Á móti kemur að skógarmörk eru víða farinn að færast norður á bógin og hærra upp til fjalla og stuðla þar með að aukinni upptöku kolefnis.  Eftir stóra skógarelda vex upp laufskógur sem endurkastar meiri sólargeislun, einkum yfir vetrarmánuðina, en hinn sígræni, dökki barrskógur og dregur þannig úr hlýnun veðurfars.  Heildaráhrif barrskógabeltisins á kolefnisbúskap og loftslag heimsins eru því enn nokkuð óljós.

Ráðstefnan undirstrikaði mikilvægi skógarrannsókna sem sjaldan hefur verið meira en á þessum breytingartímum. Aukinn skilningur á samspili veðurfars og skógarvistkerfa er nauðsynlegur til þess að hægt sé að nýta skóga heimsins með sjálfbærum hætti, jafnframt því að vernda líffræðilegan fjölbreytileika þeirra.