Tilkynnt um úrslit í myndbandasamkeppninni Think Forests

Árið 2015 gæti ráðið úrslitum um þróun heimsins á komandi árum, áratugum og öldum. Í dag hefst í New York fundurinn mikli þar sem þjóðir heims hyggjast koma sér saman um sameiginleg markmið um sjálfbæra þróun. Þessi markmið eiga að beina heimsbyggðinni í átt til sjálfbærra lífshátta. Þetta er talið vera eitthvert mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Í tengslum við fundinn hafa verið tilkynnt úrslit myndbandasamkeppni CIFOR um skóga og sjálfbærni.

Skógar eru aðeins nefndir í texta eins af markmiðunum sautján eins og þau liggja fyrir fundinum. Það er markmiðið um umhverfið. Samt sem áður leggja skógar eitthvað til málanna í nær öllum þessum markmiðum. Í þrjú ár hefur verið unnið að gerð markmiðanna sautján með víðtæku alþjóðlegu samstarfi og nú um helgina er meiningin að innleiða markmiðin í samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Sú samþykkt er á dagskrá allsherjarþingsins sem nú stendur yfir. Markmiðin eru sett til ársins 2030 og þau leysa af hólmi þúsaldarmarkmiðin svokölluðu sem sett voru til fimmtán ára um aldamótin síðustu. Á vef CIFOR er tíundað hvað skógar leggja til markmiðanna um sjálfbæra þróun.

Fólk beðið um að setja skóga í brennidepilinn

Í samhengi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna hratt alþjóðlega skógrannsóknarmiðstöðin CIFOR af stað myndbandasamkeppni þar sem þátttakendur voru beðnir að segja heiminum á myndrænan hátt hvers vegna skógar væru ómissandi þáttur í sjálfbærri þróun. Myndböndin máttu ekki vera lengri en tvær mínútur.

Yfir áttatíu myndbönd bárust í keppnina frá 29 löndum. Tíu manna dómnefnd hlaut það erfiða hlutverk að velja besta myndbandið en einnig gafst almenningi kostur á að segja álit sitt og veitt voru verðlaun fyrir bæði úrskurð dómnefndar og álit almennings. Öll myndböndin má sjá hér.

Sigurvegararnir

Hjá dómnefndinni varð hlutskarpast myndbandið Our Land, landið okkar, eftir Amin Panji Wijaya, Agrita Widyasari, Ardiles Rante, Nehemia Pareang, Fennysia Wijaya og Zacharia Dwiky Erlangga. Í myndbandinu er sýnt hvernig skógar tryggja lífsafkomu okkar og að enn sé ekki of seint að endurgjalda þeim gjafir þeirra. Höfundarnir hljóta 4.000 Bandaríkjadollara í verðlaun. Myndbandið má sjá hér.

Á hæla sigurmyndbandsins komu myndböndin One Single Tree eftir Carolin Winter og Florian Schnabel og Behind the Tree eftir Ludo Pigeon, Marco Bustamante, David Torres ogFrank Hajekl. Hvort um sig hlaut 500 dollara í verðlaun.

Flest atkvæði almennings fékk myndbandið #Feelforests eftir Luis Alberto Ramírez, Juan Bejarano Varela, Walter Martínez Sáenz og samstarfsfólk þeirra. Myndbandið sýnir okkur fram á að við þurfum að styrkja tengsl okkar við skóginn og besta leiðin til þess sé að vera í skógi. Myndbandið má sjá hér.

#Feelforests  #Thinkforests  #SustDev  #SDGs  #Globalgoals

height=

Texti: Pétur Halldórsson