Fyrri hluti alþjóðlegu myndlistarsýningarinnar Fantasy Island var opnaður á Skriðuklaustri í dag. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði sýninguna að viðstöddum nokkrum listamannanna og fjölda gesta.

Á Skriðuklaustri verður sýnd hugmyndavinna þeirra átta innlendu og erlendu listamanna sem hafa síðustu mánuði unnið að þróun listaverka sem komið verður fyrir á stórsýningu í Hallormsstaðaskógi og á Eiðum í júní.

Listamennirnir sem sýna hafa allir verið áberandi á vettvangi samtímalistar undanfarin ár og eru margir hverjir heimsþekktir fyrir sín verk. Rýmishugsun í fjölbreyttum myndum, oftast í samfélagslegu návígi, einkennir vinnubrögð þeirra ásamt vissu óstýrilæti, óvæntu hugmyndaflugi og innri spennu.

Sýnendurnir átta eru: Atelier van Lieshout (Hollandi), Paul McCarthy (Bandaríkjunum), Jason Rhoades (Bandaríkjunum), Katrín Sigurðardóttir, Elin Wikström (Svíþjóð), Björn Roth, Þorvaldur Þorsteinsson og Hannes Lárusson.

Fantasy Island er stærsti listviðburður sem átt hefur sér stað á Austurlandi. Sýningin er liður í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, en að henni standa: Gunnarsstofnun, Skógræktin á Hallormsstað og Hannes Lárusson sem einnig er sýningarstjóri. Hekla Dögg Jónsdóttir hefur umsjón með framkvæmd sýningarinnar og Eiðar ehf. eru samstarfsaðili.