Þann 25. febrúar s.l. auglýsti Skógrækt ríkisins á Hallormsstað útboð á grisjun. Er þetta í fyrsta sinn sem útboð á grisjun skógar er auglýst á Íslandi og þar með ákveðin þroskamerki í íslenskri skógrækt.

Að sögn Þórs Þorfinnssonar, skógarvarðar á Hallormsstað, er um að ræða 3,7 hektara lerkiskógar á Hafursá á Héraði sem gróðursettur var 1983 og er nú orðinn tæplega 7m. hár að meðaltali. Þetta er aðeins brot af því skóglendi sem þarf að grisja á komandi árum. Svo eru aðeins 7 ár í að fyrstu gróðursetningar Héraðsskóga ná þessum aldri og þá margfaldast grisjunarþörf.

Landshlutabundnu skógræktarverkefnin, í samstarfi við Skógrækt ríkisins, Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskólan á Hvanneyri, hafa á undanförnum árum haldið nokkur námskeið í grisjun einkum fyrir skógarbændur. Þar hafa reyndir skógarhöggsmenn Skógræktar ríkisins miðlað af sínum viskubrunni. Auk þess hafa allmargir skógarbændur öðlast töluverða reynslu við grisjun í Hallormsstaðaskógi og skógum innan vébanda Héraðsskóga á s.l. áratug. Það er því orðinn til allstór hópur manna sem ætti að vera í stakk búinn til að bjóða í verkið.

Skógrækt ríkisins hefur gengið í gegnum stefnumótun nýverið þar sem m.a. var komist að þeirri niðurstöðu að það væri skógrækt í landinu til framdráttar að Skógrækt ríkisins skilgreini ákveðin verkefni og úthýsi eins og kallað er. Þar með væri stuðlað að uppbyggingu á verktakastarfsemi, sem er ekki hvað síst nauðsynleg á sviði skógarhöggs. Þetta útboð er liður í þeirri viðleitni.