Fyrsti verksamningur um skógarhögg hérlendis hefur verið undirritaður og er hann á milli Skógræktar ríkisins á Hallormsstað og Helga Bragasonar, bónda. Til stendur að grisja í landi Skógræktarinnar á Hallormsstað. Þar verða felld tré til að bæta vaxtarskilyrði annarra trjáa. Felld verða nytjatré og unnir úr þeim girðingarstaurar, kurl og eldiviður.

Þrír skógræktarbændur buðu í verkið. Helgi Bragason átti hagstæðasta tilboðið en hann er skógarbóndi og auk þess lærður í meðferð keðjusagar og í öðrum vinnubrögðum við skógarhögg. Nokkrir skógarbændur hafa undanfarin ár unnið að grisjun tíma úr ári samkvæmt samningum við ríkið um uppræktun nytjaskóga. Vegna stóraukinnar skógræktar á Fljótsdalshéraði er ljóst að skógarhögg verður vaxandi atvinnugrein á svæðinu á komandi árum en Helgi Bragason, bóndi er að líkindum sá fyrsti sem kallast getur skógarhöggsmaður hér á landi í atvinnuskyni og samkvæmt útboði að minnsta kosti.

Heimild: Fréttir Bylgjunnar, 13. mars 2004, kl. 12:00. Fréttamaður: Gissur Sigurðsson