Í gær náði Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, í fyrsta sinn ljósmynd af áður óþekktu kattardýri hér á landi. Virðist sem um sé að ræða evrópska Gaupu (Lynx lynx), en dýrið er svipað stórum hundi. Var dýrið á ferð í grisjuðum stafafurureit í Ásólfsstaðahlíð í Þjórsárdal. Hafa starfsmenn Skógræktarinnar séð spor í snjónum síðustu vikur en ekki vitað hvaða dýr væri þar á ferð.

Ekki er ljóst hvernig dýrið hefur borist til landsins, en grunur beinist að ræktanda í Ölfusi sem stundað hefur innflutning á framandi kattardýrum. Virtist gaupan vera nokkuð vel haldin enda nóg af rjúpu í Þjórsárdalsskógi. Ekki er ljóst hvaða áhrif dýrið mun hafa á líffræðilegan fjölbreytileika í skóginum en það er nokkuð ágengt. Starfsmenn skógræktarinnar munu reyna að fóðra gaupuna með kattamat eftir hádegi í dag.


Texti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi
Mynd: Jóhannes H. Sigurðsson aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi