Þó að græðlingarnir okkar hafi verið að koma vel út eru þó einhver afföll. Hún Halla, svæðisstjórinn okkar sem jafnframt hefur klippt græðlingana að mestu, sætti sig ekki við þau og hefur verið að reyna að gera sér grein fyrir ástæðunni. Fyrir nú utan gæsir og aðrar sýnilegar hremmingar eru líka græðlingar sem hafa komið til en lagt svo fljótlega upp laupana. Þegar þeir eru teknir upp sést að þegar þeir eru settir niður í gegnum plastið hefur það nánast límst á endana og jafnvel uppeftir græðlingunum og þannig komið í veg fyrir eða minnkað stórlega vatnsupptöku. Dagskipunin í ár er því að gera gat á plastið með fingri eða öðrum verkfærum áður en græðlingunum er stungið niður. Þessu er hér með komið á framfæri því við höfum ekki heyrt um þetta áður.