Fundur um Skógarbókarverkefnið - Grænsíðu var haldinn á Hótel Héraði mánudaginn 16. febrúar síðastliðinn.  Fundinn sátu fulltrúar Landshlutabundnu skógræktarverkefnanna, Skógræktarfélags Reykjarvíkur og Skógræktar ríkisins, ásamt starfsmönnum Tölvusmiðjunnar.

Tilefni fundarins var að smíði gagnagrunns til skógræktar ?Grænsíðu? stendur nú á ákveðnum tímamótum þar sem frumgerð kerfisins/viðmótsins er tilbúið til skoðunar.  Á fundinum var farið yfir framvindu verkefnisins, frumgerð kerfisins sýnd, næstu skref ræddi í framhaldinu, þau samræmd og ákvörðuð.

Tilfinning þeirra sem stóðu að fundinum var sú að almenn ánægja var með viðmótið og þá vinnu sem unnin hefur verið fram að þessu.  Fundarmenn komu enga síður með margvíslegar ábendingar og breytingatillögur sem munu nýtast vel í þeirri vinnu sem er framundan.  Þá var skipuð nefnd 3 manna til að yfirfara og koma með tillögu að litamerkingu ættkvísla og skammstöfunum jarðvinnsluaðferða og plöntutegunda.  Einnig var einum aðila falið að koma með tillögu að því hvaða þekjur ættu að vera til staðar inni í kerfinu.

Þá var farið var yfir fjárhagsstöðu verkefnisins en ljóst er að sú fjárveiting sem verkefninu hefur verið tryggð á þessu ári mun ekki duga til að klára þann þátt gagnagrunnsins sem menn vonuðust til að ná að getað klárað.  Sú ákvörðun var aftur á móti tekin á fundinum að fara vel yfir fjárhags- og verkferla með það í huga að reyna að ná að komast sem lengst með forritunina á þessu ári en fresta hugbúnaðarkaupum þar til verkefninu er tryggt frekara fjármagn.  Héraðsskógar hafa nú þegar sent inn fjárlagaerindi til Landbúnaðarráðuneytis um fjárveitingu fyrir gagnagrunnin á næsta ári.

Þeir sem áhuga hafa á að fylgjast með framvindu þessa verkefni eða vilja leggja eitthvað til málana er bent á að kíkja á vefslóðin http://skogarbok.blogspot.com en þar er að finna upplýsingar og samskipti verkefnastjórnar.  Öllum er frjálst að skoða og svara þar erindum og hvetjum við áhugasama um að taka þátt í þeirri umræðu sem þar er að finna.