Enn stendur leitin að hæstu trjám Íslands yfir og meðal annars hefur töluverður fjöldi birkitrjáa verið mældur. Um hálf öld er liðin síðan innfluttar trjátegundir uxu hæsta íslenska birkinu yfir höfuð, en engu að síður er forvitnilegt að vita hversu hátt birkið getur orðið.

Birki í Bæjarstaðaskógi er hávaxið og er hæsta skráða mæling þar 12,2 m. Hingað til hefur þó verið talið að hæsta birkið væri á Norðurlandi. Lengi var birkitré í Fellsskógi talið hæst allra trjáa á Íslandi (12,7 m). Síðustu áratugi hefur tré eitt í Vaglaskógi verið talið hæst bjarka, en það reyndist vera 13,2 m skv. mælingu í haust. Önnur björk í sama skógi reyndist vera hærri að þessu sinni, eða 13,4 m.

Þetta haust mældust tvö birkitré í Hallormsstaðaskógi hærri en þau hæstu í Vaglaskógi. Annað er í trjásafninu og er gróðursett tré upprunnið í Bæjarstaðarskógi; 13,7 m hátt. Hitt er öldungur meðal bjarka og var eflaust orðið stórt tré þegar Hallormsstaðaskógur var friðaður 1905. Það telst nú vera hæsta vilta birkitré landsins og er 13,96 m hátt.

Eitt gróðursett íslenskt birkitré er þó hærra. Það vex í Minjasafnsgarðinum á Akureyri og var gróðursett fyrir um 100 árum síðan þegar þar var rekin gróðrarstöð. Að öllum líkindum er það upprunnið í Vaglaskógi. Sem sagt, hæsta íslenska björkin er enn norðlensk; 14,44 m há.