Niðurstöðurnar benda til þess að mun meiri arður geti verið af skógrækt í uppsveitum Wales en af hef…
Niðurstöðurnar benda til þess að mun meiri arður geti verið af skógrækt í uppsveitum Wales en af hefðbundnum búskap. Mælt er með því að bændur alls staðar í landinu auki trjárækt til að efla búskap sinn. Mynd: Confor.

Áhugaverðar niðurstöður úr nýrri rannsókn í Wales

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var í Wales gefur barrviðarskógur í fullum nytjum fimm sinnum meira af sér fyrir þjóðarbúið en akuryrkja og búfjárrækt án tillits til opinberra styrkja. Rannsóknin náði til 4.000 hektara skóglendis og 4.000 hektara af sambærulegu landbúnaðarlandi í Wales. Árlegur hagnaður af skógi reyndist vera 83,72 pund á hektara að frátöldum opinberum stuðningi til skógræktar en árlegt tap af hefðbundum búskap reyndist vera 109,50 pund á hektara ef opinber stuðningur var ekki tekinn með í reikninginn.

Rannsóknina gerði SAC Consulting, ráðgjafar- og þekkingarstofnun skoska dreifbýlisháskólans SRUC, að undirlagi Confor, samtaka skógareigenda og iðnfyrirtækja í skógrækt og skógarnytjum. Markmiðið var að gera hagfræðilegan samanburð á barrviðarskógi í fullum nytjum í uppsveitum Wales og hefðbundnum búskap á sambærilegu landi. Ekki var litið til samfélagslegs eða fjárhagslegs hagnaðar á borð við útivist eða umhverfisleg efni og rannsakendurnir taka fram að ekki sé víst að þessar niðurstöður megi heimfæra beint á önnur svæði eða annars konar aðstæður.

Framleiðni

Niðurstöður rannsóknarinnar á samanburðarsvæðunum sýna að þegar ræktaður skógur er kominn í fullar nytjar og farinn að gefa timbur og aðrar afurðir er afraksturinn af honum næstum fimm sinnum meiri en af hefðbundnum búskap. Þessi mikli munur stafar meðal annars af því að verð á timbri hefur farið hækkandi undanfarin ár vegna aukinnar spurnar eftir viði til lífeldsneytisframleiðslu. Nettótekjur af hefðbundnum landbúnaði hafa hins vegar lækkað vegna aukins kostnaðar við starfsemina og lækkandi verðs sláturgripa.

Í framtíðinni er gert ráð fyrir að skógrækt skili 50% meiri tekjum í þjóðarbú Walesmanna en hefðbundinn búskapur þegar timburframleiðsla úr ræktuðum skógum kemst í jafnvægi. Velta út í efnahagslífið frá skógræktargeiranum er nú helmingi meiri en frá hefðbundnum landbúnaði enda er verið að byggja upp skógarauðlindina og umsetningin mikil. Þegar jafnvægi verður náð er gert ráð fyrir að velta skógræktargeirans út í efnahagslífið frá skógargeiranum verði um 90% af framlegð hefðbundins landbúnaðar. Þegar skógræktin er komin í jafnvægi og greinin er ekki lengur í uppbyggingu er gert ráð fyrir að hún beri hagnað fyrir þjóðarbúið en hefðbundinn landbúnaður tap.

Atvinna

Eins og sakir standa hafa 60% fleiri atvinnu af skógrækt en hefðbundnum landbúnaði á svæðunum sem borin voru saman enda fer mun meira púður í skógræktina í þeirri uppbyggingu sem þar er í gangi. Í fyllingu tímans er gert ráð fyrir að greinarnar báðar skapi álíka mörg störf þegar jafnvægi verður komið á ræktun, nýtingu og endurræktun skóganna með að jafnaði 40 ára ræktunarlotum. Tekið er fram að tilhneigingin sé sú að rækta skóg á landi sem hentar síður til hefðbundins búskapar og á slíkum svæðum sé líklegt að færri störf séu á hverja flatarmálseiningu í hefðbundnum búskap. Þetta má væntanlega skilja sem svo að fleiri störf fáist með skógrækt en hefðbundnum búskap á slíkum svæðum. Rannsakendur mæla með því að frekari rannsóknir verði gerðar á áhrifum landgæða á fjölda starfa.

Niðurstöðurnar athyglisverðar

Sem fyrr er greint reyndist árlegur hagnaður af skógi vera 83,72 pund á hektara á en árlegt tap af hefðbundum búskap 109,50 pund á hektara á þeim svæðum sem tekin voru til samanburðar. Opinber stuðningur við skógrækt og hefðbundinn búskap var ekki tekinn með í reikninginn.

Í ljósi þessara niðurstaðna mæla samtökin Confor nú með því við alla velska bændur að þeir geri starfsemi sína fjölbreyttari með aukinni trjárækt. Niðurstöðurnar sýni að barrviðarskógrækt feli í sér mikil tækifæri fyrir bændur í uppsveitum Wales en hún geti einnig skipt miklu máli fyrir efnahaginn í helstu landbúnaðarhéruðnumum á láglendissvæðum landsins. Með skógræktinni gefist færi á að dreifa kröftum bændanna, efla og bæta umhverfið, mynda skjól fyrir búpening, auka líffjölbreytni og gera bændur minna háða opinberum framlögum eftir því sem tímar líða.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson