Næsta haust verður hleypt af stokkunum nýrri námsbraut við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.  Um er að ræða  þriggja ára námsbraut til B.Sc.-gráðu í skógrækt. Með tilkomu hennar verður í fyrsta sinn hægt að nema þessi fræði á háskólastigi hér á landi.
 
Það er ekki síst fyrir tilmæli og hvatningu fagaðila í starfsgreininni sem yfirstjórn Landbúnaðarháskólans tók þá ákvörðun að koma þessari námsbraut á fót við skólann.  Þar eru fyrir þrjár námsbrautir á sviði landbúnaðar- og náttúruvísinda, þ.e. landnýtingar-, búvísinda- og umhverfisskipulagsbraut.  Nemendur við skólann eru nú 170 talsins og flest bendir til að þeim fjölgi ört á næstu árum.
 
Nám í skógfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri er þverfaglegt, með áherslu á náttúruvísindi, tækni- og rekstrargreinar, auk sérgreina skógræktarinnar. Náminu er ætlað að búa fólk undir störf í atvinnugrein sem er í örum vexti hér á landi, en veita jafnframt góðan undirbúning fyrir störf tengd rekstri, stjórnun, tækniþróun, umhverfismálum og náttúruvísindum á öðrum sviðum atvinnulífsins.  Kappkostað verður að sníða námið vel að þörfum nemenda og ekki síst að aðstæðum í íslensku umhverfi.

Heimild: www.landbunadur.is