Vel tókst til við frætínsluna í Heiðmörk og nú er fólk hvatt til að koma í Guðmundarlund þriðjudaginn 4. október, tína fræ og njóta skógarstemmningar. Ljósmynd: Kristinn H. Þorsteinsson
Þátttakendur í birkifræsöfnun Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk tíndu um 850 þúsund birkifræ í haustlitadýrðinni í Heiðmörk í gær. Skógræktarfélag Kópavogs efnir til sambærilegs viðburðar þriðjudaginn 4. október.
Söfnunin gekk vel og á stuttum tíma söfnuðust um 850 þúsund fræ sem lögð voru inn í fræbanka verkefnisins. Verður þeim sáð í örfoka land áður en langt um líður. Næsti viðburður af þessum toga verður á vegum Skógræktarfélags Kópavogs þriðjudaginn 4. október í Vatnsendahlíð kl. 17.30-19.00.
Söfnun birkifræja er skemmtilegt fjölskylduverkefni. Börn hafa mjög gaman af því að tína fræ. Þau skynja mikilvægi þessa verkefnis afskaplega vel og eru fljót að tileinka sér vinnubrögð. Að tína birkifræ er holl og góð útivera og hreyfing en mikilvægt er að meta veður og klæða sig eftir því.
Að lokinni frætínslu má annað hvort skilja fræin eftir hjá Skógræktarfélaginu eða skila þeim í fræsöfnunarkassa í Bónusverslunum og Olís-stöðvum. Þeim fræjum sem safnað er verður sáð í örfoka land víða um land, meðal annars í upplandi Kópavogs. Þá getur fólk líka tekið fræið sitt með sér heim og síðan valið eigin svæði til sáninga.
Með því að klæða örfoka landsvæði birkiskógi stöðvast kolefnislosun og binding hefst í staðinn. Átakið snýr að bæði loftslags- og umhverfisvernd og er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám en þekur einungis 1,5% lands í dag. Markmið stjórnvalda er að birki vaxi á fimm prósentum landsins árið 2030. Það er í senn metnaðarfullt og mikilvægt starf að auka þekju birkiskóga og birkikjarrs í 5%. Það verður ekki auðvelt og því er mikilvægt að virkja sem flesta til þessa verkefnis.
Auk Bónuss og Olís er Prentmet Oddi bakhjarl þessa verkefnis og að því vinna ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess, Landvernd, Lionshreyfingin, Kvenfélagasamband Íslands og fleiri.