Frétt úr Morgunblaðinu, með viðtali við Ólaf Eggertsson, sérfræðing á Mógilsá ("Fornskógur í Fljótshlíð varð Kötluhlaupi að bráð")

Mynd: Hrafn Óskarsson

Við eyrar Þverár í Fljótshlíð er að finna fornan skóg sem varð Kötluhlaupi að bráð fyrir um 1.230 árum, eða einhvern tímann á tímabilinu 680-890 eftir Krist, samkvæmt breskri geislakolsgreiningu sem niðurstöður lágu fyrir úr fyrr í þessari viku. Á um 300 hektara svæði standa birkilurkar um 20-60 sentimetra upp úr sandinum, sem allir halla í suðvestur, þá átt sem hlaupið hefur runnið í. Svæðið hefur verið kallað Drumbabót.

"Þetta hefur verið mjög mikill skógur og trén eru jafnsver og sverustu birkitré sem vaxa í íslenskum skógum í dag, yfir 30 sm í þvermál," segir Ólafur Eggertsson, jarðfræðingur á Rannsóknarstöð Skógræktarinnar að Mógilsá, sem hefur rannsakað Drumbabót í félagi við Óskar Knudsen og Hjalta J. Guðmundsson. Hann segir að skógurinn hafi verið vel þroskaður, þéttleikinn hafi verið 500-600 tré á hektara og árhringjatalning sýni að trén hafi verið 70-100 ára gömul þegar þau urðu flóðinu að bráð. Breidd árhringjanna sýnir að veðurfar á þeim tíma sem skógurinn óx var svipaður og á árunum 1930-1940, en sumarhiti þann áratug er sá hæsti síðan hitamælingar hófust.

Skógurinn náði yfir um 2.000 hektara svæði, þó lurkarnir séu einungis sýnilegir á um 300 hektarum. Ólafur segir að ef grafið sé í sandinn komi lurkarnir í ljós. Trén eru öll í lífstöðu, þannig að rótin situr enn þá í jarðvegi undir sandinum. Þetta þýðir að þau hafa öll drepist í þessum eina atburði. "Það hefur greinlega verið mikil flóðbylgja sem kom þarna niður, sem hefur brotið þau og kaffært," segir Ólafur. Þetta er yngsta hlaupið á þessu svæði sem til eru gögn um, en ekki hefur tekist að tengja það við þekkt eldgos.

11-14 hlaup á síðustu 9.000 árum
Ólafur er nú með sýni í aldursgreiningu, sem mun væntanlega gefa nákvæmari aldur á því hvenær trén drápust. "Það verður þá auðveldara að tengja hlaupið við þekkt gos, hugsanlega í Mýrdalsjökli," segir hann, en Guðrún Larsen jarðfræðingur hefur tengt gos úr Kötlu við öskulög. Hann segir að rannsóknir bresks landfræðings, Kate Smith, sem nýlega varði doktorsritgerð sem fjallaði um rannsóknir á svæðinu og sem hafi innihaldið þá geislakolsgreiningu sem liggur fyrir, bendi til að 11-14 hlaup, að minnsta kosti, hafi farið þarna niður á síðustu 9.000 árum.

Ólafur segir að dauð tré hafi fundist undir öskulögum nálægt Heklu, þannig að það sé ekki einsdæmi að fornir skógar komi í leitirnar, nema hvað lurkarnir í Drumbabót séu mjög vel varðveittir. "Þetta hefur verið grafið í sandinn, blautan sand svo ekki hefur komist súrefni að þeim og lurkarnir hafa ekki náð að rotna. Ef maður grefur aðeins ofan í sandinn er viðurinn eiginlega ferskur niðri við rótina. Þess vegna gátum við tekið sneiðar af þessu og mælt árhringina," segir hann. Elstu heimildir um Drumbabót eru aðeins um fimmtán ára gamlar, en talið er að Þverá hafi rofið efsta lagið ofan af lurkunum, auk veðurs og vinda, svo þeir blasi nú við.

Frétt í Morgunblaðinu, sunnudaginn 22. febrúar 2004