Skógar skapa skjól. Þetta þekkja landsmenn sem flykkjast í skóga til að njóta skjóls og útiveru í ýmiskonar veðri. Nú hafa vísindamenn nýtt sér skjól skóganna til að hlusta eftir eldgosum eða öðrum náttúruhamförum.

í júní setti Háskólinn í Flórens upp mælitæki í Þjórsárdalsskógi. Verkefnið er hluti af alþjóðaverkefninu „Futurevolc" sem Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Almannavarnir og Samsýn taka þátt í af hálfu Íslands. Var Ísland valið sem tilraunastaður enda eldgos algeng. Tækin eru svokallaðir „infrasound" mælar og eru gerðir til að mæla hljóðbylgjur á lágri tíðni (20 Hz - 0,001 Hz), sem berast um í andrúmsloftinu frá atburðum eins og eldgosum, snjóflóðum, hrapi loftsteina og fl. Ein mælastöð samanstendur af 4 þrýstinemum sem eru uppsettir í hring með 100-1000 metra radíus, þar sem 3 nemanna dreifa sér á hringinn og einn er staðsettur í miðjunni. Í miðjustöðinni er svo stafsetjari og gagnasöfnun, og samskiptabúnaður sem sendir gögnin í nær rauntíma til Veðurstofu Íslands. Á Íslandi var ein slík stöð fyrir í Gunnarsholti, sett upp af sömu aðilum. Tvær aðrar eru í bígerð á næsta ári, ein einhverstaðar austan Mýrdalsjökuls og önnur við Skaftafell.

Tilgangur stöðvanna er að vakta eldfjöllin Heklu, Eyjafjallajökul/Kötlu og eldstöðvarnar í Vatnajökli, sem og aðrar uppsprettur lágtíðni hljóðbylgna. Með stöðvunum má tímasetja gosbyrjun með mikilli nákvæmni sem og finna út hraða gosmakkar og hæð gosmakkar hverju sinni, sem eru nauðsynlegar upplýsingar fyrir öskuspá dreifingu. Auk þess sem niðurstöðurnar nýtast sem stuðningur við aðrar mælingar af hamförum, eins og jarðskjálftamælingar og mælingar á gaslosun.

Einn helsti truflanavaldur „infrasound" mælinga er vindur og því eru tækin helst sett upp í þéttum skógi og þrýstinemarnir grafnir niður í skógarbotninn. Tilraunaskógurinn fyrir sunnan Gunnarsholt og Þjórsárdalsskógurinn eru því tilvaldir staðir hér á landi. Hér með eru nokkrar myndir frá uppsetningunni í Þjórsárdal.


























Texti: Bergur H. Bergsson og Hreinn Óskarsson.
Myndir: Bergur H. Bergsson og Hreinn Óskarsson.