Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 12.15, mun Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytja fræðsluerindi í sal Möguleikhússins á Hlemmi. Erindið nefnist ?Áhrif skógræktar á fuglalíf?. Í erindinu verður kynntur hluti niðurstaða rannsóknaverkefnisins  ?SKÓGVIST(-ar)?, en það verkefni er unnið í samstarfi Skógræktar ríkisins (Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá), Náttúrufræðistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Mynd: Fuglatalningamenn, Halldór Walter og Ólafur Einarsson í 40 ára gömlum lerkiskógi, sem hefur verið grisjaður. Ljósm. Ólafur K. Nielsen.

SKÓGVIST er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins og Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins. Megin tilgangur SKÓGVISTar er að lýsa þeim breytingum sem verða í vistkerfinu er skógur vex upp á skóglausu landi. Rannsóknasvæðið eru lerki- og birkiskógar austur á Héraði og aðferðafræðin byggir á því að bera saman vistkerfi á skóglausu landi við vistkerfi í misgömlum skógum.

Einn þáttur þessa verkefnis snýst um að lýsa þeim breytingum sem verða á fuglafánunni og það er umfjöllunarefni fyrirlestrarins. Fuglatalningar voru gerðar á skóglausu landi, í gömlum birkiskógi og í lerkiskógum á þremur aldurskeiðum, þ.e. 7-10 ára gömlum lerkiskógum (meðalhæð trjáa 1,4 m), 17-23 ára gömlum (meðalhæð 4,5 m) og 33-47 ára gömlum (meðalhæð 11,8 m).

Tvennskonar aðferðum var beitt við talningarnar svokölluðum punkttalningum annars vegar og hins vegar svokölluðum sniðtalningum. Í erindinu verður fjallað um nákvæmni talninganna, samsetningu fuglafánunnar og hvort og hvernig hún breytist er land klæðist skógi.

Fræðsluerindi Náttúrufræðistofnunar eru opin öllum.