Hreindýr hafa verið talsvert í byggð í vetur og hafa skógarbændur nokkrar áhyggjur af því að hreindýrin muni skemma trjáplöntur í ungskógi.  Þau svæði sem hafa verið girt og friðuð um nokkurt skeið eru vinsæl af hreindýrunum og virðist nokkur hætta á að þau dvelji um lengri tíma í ungskógi. 

Á myndunum sem hér fylgja má sjá dæmi um það hvernig hreindýrin geta farið með einstaka tré í ungskógi, en þarna má sjá um átta ára gamla stafafuru.  Skaði sá er hreindýrin valda á skógi er kannski ekki stórvægilegur í hlutfalli við þá miklu skógrækt sem er stunduð á Héraði,  hinsvegar er um tilfinningalegt tjón að ræða og hálf ömurlegt að sjá tveggja til þriggja metra há tré sem búið er að urga af allan börkinn nánast frá rót og upp í topp.

Oftast er um að ræða tré sem standa í jöðrunum á skógarsvæðunum en svo virðist sem hreindýrin fari ekki inn í skógarreitina eftir að trén hafa náð vissri hæð og þéttleika.   Algengast er að það séu hópar hreindýrstarfa sem koma í ungskóginn, 10 - 30 dýr í hóp.  Þegar hornin eru að byrja að vaxa vaknar þörfin fyrir að urga þeim við eitthvað og virðast törfunum lítast afar vel á tré til þeirrar iðju.