Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Sumarið var seint á ferðinni á Austurlandi þetta árið og júnímánuður sá kaldasti í mörg ár. Hvaða afleiðingar hefur kuldinn á skóginn?

Lerki illa farið

Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, segir sveiflurnar hafa verið miklar í vor. „Apríl var sérstaklega hlýr og þess vegna voru trén öll komin vel af stað þegar hretið skall á í maí. Við tók svo afar kaldur júnímánuður, sá kaldasti í mörg ár.“

Hretið hefur haft langmest áhrif á lerki sem víða á Austurlandi er gult og brúnt að lit. Einnig hefur kuldinn komið niður á ösp á svæðinu að einhverju leyti. „Aðrar tegundir, t.d. fura, greni og reynir, þola kuldann betur,“ segir Þröstur.

Munur á milli kvæma

Þó lerkið hafi orðið verst fyrir barðinu á veðurfarinu er það ekki allt jafn illa farið. „Munurinn á milli kvæma er nokkuð mikill,“ segir Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur á Austurlandi. „Norðlægu kvæmin fara verst út úr hretinu. Þau vakna fyrr á vorin og búa sig fyrr undir veturinn.“

Tap í viðarvexti

Reynslan sýnir að hret sem þetta getur dregið dilk á eftir sér. „Síðast fengum við álíka hret árið 2003,“ segir Lárus. „Sá skógur sem fór verst út úr hretinu fyrir átta árum hefur enn ekki náð upp fullum vaxtarhraða. Við höfum sloppið örlítið betur núna, því frostskemmdirnar eru minni. En tapið í viðarvextinum er töluvert og lokahöggi seinkar um einhver ár. Það er því kannski eðlilegt að velta því fyrir sér hvort áfram eigi að leggja áherslu á lerkirækt.“

Þröstur tekur undir áhyggjur Lárusar af töpuðum viðarvexti. „Til lengri tíma litið eru alvarlegastu afleiðingar hretsins að trén missa vöxt sem annars hefði orðið. Ef hlýindin núna halda áfram getur ýmislegt lagast,“ segir Þröstur. „Vöxturinn verður samt sem áður miklu minni en í meðalsumri og trén safna ekki upp forða fyrir næsta ár. Hagfræðingar gætu reiknað út hversu mikið hret sem þetta kostar.“



Texti og mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir