Efnahagsráð Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, UNECE, býður til tveggja klukkutíma hringborðs um barrskógabeltið og framtíð þess í hlýnandi loftslagi mánudaginn 15. mars. Þar verður m.a. rætt um aðgerðir til að auka viðnámsþrótt vistkerfa í barrskógabeltinu og aðlögunarmátt gagnvart loftslagsbreytingum.

Skógar barrskógabeltisins eru um 63 prósent af allri skógarþekju í þeim löndum sem tilheyra UNECE, efnahagsráði Sameinuðu þjóðanna í Evrópu. Þessir skógar eru því mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á þessu svæði.

Þetta lífbelti eða búsvæðabelti sunnan norðurskautssvæðisins er ekki eingöngu mikilvægt til að stýra loftslagi á jörðinni. Það hefur  líka að geyma meira af fersku vatni en nokkurt annað lífbelti á jörðinni. Nú hækkar meðalhiti í barrskógabeltinu og þar er því spáð að hitinn muni hækka meira en að meðaltali á jörðinni allri næstu áratugi. Og jafnvel þótt gera megi ráð fyrir að víða í barrskógabeltinu muni kolefnisbinding aukast eru önnur svæði sem raskast með tíðari gróðureldum, bráðnun sífrerans og öðrum breytingum sem fylgja hlýnandi loftslagi. Þar má búast við að kolefnislosun verði meiri en binding og vistkerfin taki verulegum breytingum.

Þessi þróun hefur líka áhrif á þá miklu líffjölbreytni sem er í barrskógabeltinu. Þar má nefna ýmis einkennisdýr svæðisins eins og hreindýr í skógum, úlfar, gaupur, bjórar, skógarbjörninn og síberíutígurinn. Breytingarnar ógna líka afkomu fjölda fólks sem reiðir sig beint og óbeint á það sem vistkerfi barrskógabeltisins gefa af sér.

UNECE heldur úti sérstökum samræðuvettvangi um sjálfbæra þróun. Á vegum hans verður boðið til hringborðs um barrskógabeltið í tvo klukkutíma 15. mars. Þar má fræðast um þau verkefni sem unnið er að til að viðhalda barrskógunum og nýta þá með sjálfbærum hætti. en líka verkefni sem miða að því að auka viðnámsþrótt þeirra við breytingunum og aðlögunarmátt. Hringborðið hefst klukkan 14 að íslenskum tíma mánudaginn 15. mars og lýkur kl. 16.

Fundurinn fer fram á ensku en verður þýddur jafnóðum á rússnesku. Umsjón með þessum viðburði hefur skógræktar- og timbursvið UNECE/FAO.

Frekari upplýsingar er að finna hér. Skráning fer fram hér. Fyrirspurnir má senda á netfangið milica.apostolovic@un.org eða oliver.wolf@un.org.

Skráning