Fyrirsjáanlegt er að minna verður flutt til landsins af jólatrjám á næstkomandi vikum vegna þess óvissuástands sem skapast hefur í viðskiptalífinu. Þessari þróun munu Skógrækt ríkisins og skógræktarfélög landsins mæta eftir bestu getu með því að selja íslensk jólatré og bjóða fólki áfram upp á að koma í skógana og höggva sér tré um land allt.

Nú þegar hafa margir haft samband við Skógrækt ríkisins og greinilegt er að fólk vill tryggja sér jólatré með góðum fyrirvara. Tré frá Skógrækt ríkisins verða í boði eftirfarandi daga:

 

Austurland

Laugardaginn 13. desember verður markaðsdagur Félag skógarbænda á Héraði, Skógræktar ríkisins, Barra hf og Héraðs- og Austurlandsskóga haldinn í húsakynum Barra á Valgerðarstöðum í Fellum. Jólatré Skógræktar ríkisins seld þann dag og alla daga fram að jólum hjá Barra. Skógrækt ríkisins á Austurlandi býður upp á að fólk geti höggvið sín eigin tré en nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir. Skógræktarfélag Austurlands býður upp á þá þjónustu í Eyjólfsstaðaskógi helgarnar 13. og 14. desember og 20. og 21. desember frá 10:00 - 16:00.

 

Suðurland:

Alltaf er hægt að leggja inn pantanir hjá skógarverðinum á Suðurlandi (s. 864-1102). Auk þess býður Skógrækt ríkisins á Suðurlandi fólki að höggva sín eigin tré í Haukadalsskógi sunnudagana 30. nóvember, 7. og 14. desember frá 12:00 - 15:00.

 

Vesturland:

Lítið af trjám verður í boði eftir pöntunum hjá Skógrækt ríkisins á Vesturlandi en þess í stað verður fólki boðið að höggva sín eigin tré í Selskógi helgarnar 13. og 14. desember og 20. og 21. desember frá 11:00 - 16:00.

 

Norðurland:

Skógrækt ríkisins á Norðurlandi selur sín jólatré í Kjarnaskógi, en býður ekki upp á að fólk geti höggvið sín eigin tré að þessu sinni. Þá þjónustu býður hins vegar Skógræktarfélag Eyfirðinga í Þelamörk allar helgar í desember frá 12:00 - 15:00.

 

Skógræktarfélög landsins munu einnig bjóða upp á þessa þjónustu og verður hún auglýst nánar á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands á næstu dögum.