Brotið greni á Stálpastöðum
Tjón í nýgrisjuðum skógum en ekki verulegt
Varla hefur farið fram hjá þeim sem lesa fréttir á skogur.is að mikið er unnið að grisjun í þjóðskógunum þessi misseri. Við það opnast skógarnir, trén sem eftir standa fá aukið vaxtarrými, botngróðurinn eflist og aðgengi til útivistar batnar, sem er allt af hinu góða. Á móti kemur að trén eru berskjaldaðri fyrir vindi fyrst um sinn, eða þar til þau hafa fengið tækifæri til að gildna svolítið, sem tekur nokkur ár.
Mestur getur skaðinn orðið í miklu hvassviðri strax í kjölfar grisjunar og er hann einkum tvenns konar:
- Há og tiltölulega mjóstofna tré sveiflast í vindinum, rifna upp með rótum og leggjast á hliðina
- Krónumikil tré brotna, oftast þar sem einhver veikleiki er í stofninum.
Veðrið sem gerði sunnudagskvöldið 30. nóvember olli nokkrum skógarskaða. Óheppilegt var að nánast hvergi var frost í jörð, auk þess sem jarðvegur var víða mjög blautur. Við þær aðstæður þarf ekki endilega mikinn vind til að tré rifni upp, sérstaklega ekki í nýgrisjuðum skógum.
Dagana 1. og 2. desember. fóru skógarverðir á stjá til að kanna skemmdir. Mestar áhyggjur höfðu menn af nýfelldum stafafurureitum í Norðtunguskógi í Borgarfirði. Þar var ekki um grisjun að ræða heldur lokafellingu, svokallaða skermfellingu, þar sem skógurinn var að mestu felldur en 100 eða 200 tré á hektara skilin eftir til að sá sér út í svæðið og endurnýja skóginn. Þetta er í fyrsta skipti sem tilraun er gerð hér á landi til að endurnýja stafafuruskóg með sjálfsáningu eftir skermfellingu.
Í þessum nýgrisjaða reit í Vaglaskógi hafa stafafurutré bæði rifnað upp með rótum og brotnað.">
Áhyggjurnar reyndust á rökum reistar því furur lágu eins og hráviði um svæðið, eða voru hráviði öllu heldur. Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, fór um reitina og taldi trén. Reyndust 55 tré vera uppistandandi á hektara þar sem áður voru 100, og 160 tré þar sem áttu að vera 200. Flest höfðu trén rifnað upp með rótum og lagst á hliðina til austurs, enda var vestan hvellurinn mun skæðari en suðaustanáttin fyrr um daginn. Stormfallið eyðileggur þó ekki tilraunina. Í stað þess að bera saman sjálfsáningu undir 100 og 200 trjám á hektara verður fróðlegt að sjá muninn á 55 og 160 trjám á hektara.
Í haust hefur einnig allmikið verið grisjað í Stálpastaðaskógi í Skorradal. Könnun þar leiddi í ljós að um 100 tré annað hvort brotnuðu eða rifnuðu upp í veðrinu. Það eru ekki mörg tré miðað við að Stálpastaðaskógur er um 150 hektarar að flatarmáli. Algengast var að stafafurur brotnuðu þar sem gallar, t.d. tvítoppar, voru í stofni, en greni rifnaði frekar upp með rótum.
Í sumar sem leið var talsvert grisjað í Vaglaskógi og þar náði hvassviðrið sér einnig á strik aðfaranótt mánudags. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Norðurlandi, kannaði skemmdirnar og komst að því að þær voru engar í lerki- og grenireitum en í stafafurureit einum sem grisjaður var í sumar höfðu 75-100 furur rifnað upp eða brotnað og um 50 í viðbót hallast undan veðrinu. Athyglisvert var að í hluta sama reits, sem grisjaður var fyrir nokkrum árum , voru engar skemmdir. Er það til marks um að trén styrkjast gegn stormskaða eftir því sem líður frá grisjun.
Í Haukadal brotnuðu eða skekktust örfá tré og minni háttar skemmdir urðu á Tumastöðum. Engar skemmdir voru sjáanlegar í Hallormsstaðaskógi þrátt fyrir mikla grisjun undanfarin ár, enda varð ekki eins hvasst á Austurlandi. Á Mógilsá urðu sömuleiðis engar skemmdir enda er norðanáttin ofan af Esju skæðust þar en minni hætta í vestanátt eins og þeirri sem geisaði um helgina.
Það verður að segjast eins og er að 100 stormfallin tré í stórum skógum eins og Stálpastaðaskógi og Vaglaskógi teljast ekki til stórskaða. Þegar upp er staðið voru stormskaðar í skógum ekki miklir miðað við vindstyrkinn (hviður meiri en 40 m/sek.) og óheppilegar aðstæður (ófrosin og blaut jörð). Verstu skemmdirnar urðu í Norðtunguskógi, í tilraun þar sem verið var að prófa nýja hluti. Veðrið 30. nóvember 2014 bætist nú í reynslubankann. Viðurinn úr trjánum sem féllu verður nýttur og vegur það upp á móti tjóninu. Trúlega fara þessir trjábolir að mestu í kurlvið til Elkem á Grundartanga.
Skrunið lengra niður til að sjá fleiri myndir.