Nýr gagnagrunnur um trjátegundir hefur nýtist til verndunar tegunda

Undir merkjum samstarfsnets grasagarða, BGCI, hefur svarsins verið leitað undanfarin þrjú ár eða. Rýnt hefur verið í yfir 500 útgefnar heimildir í samráði við sérfræðinga um allan heim. Niðurstaðan er 60.065 trjátegundir.

Alheimstrjátegundalistinn „Global Tree Search“ er sá fyrsti sinnar tegundar og hefur að geyma allar þekktar trjátegundir á jörðinni ásamt upplýsingum um uppruna þeirra og útbreiðslu eftir löndum.

Það kann að hljóma einkennilega að ekki skuli hafa verið vitað fyrr en nú hversu margar trjátegundir yxu á jörðinni. Grein með titlinum GlobalTreeSearch - the first complete global database of tree species and country distributions birtist í tímaritinu Journal of Sustainable Forestry fyrr á þessu ári. Þar kemur meðal annars fram að meira en helm­ingur allra trjátegunda í heiminum á sér uppruna í aðeins einu landi og margar þessara tegunda eru nú í útrýmingar­hættu.

Af öllum löndum heims eru flestar trjátegundir upprunnar í Brasilíu, 8.715 talsins. Því næst er Kólumbía með 5.776 tegundir og Indónesía með 5.142.  Að frátöldum pólsvæðunum þar sem engin tré eru upprunnin eru fæstar uppruna­legar tegundir í nyrstu svæðum Norður-Ameríku sunnan norðurskautssvæðisins, innan við 1.400 tegundir.


Í gagnagrunninum sem listinn er unninn úr eru meira en 375.500 skráningar sem tók ríflega tvö ár að vinna úr. Dr Paul Smith er aðalritari eða forseti BGCI, en skammstöf­un þessi stendur fyrir Botanic Gardens Conservation International. Hann segir á vef samstarfsnetsins að jafnvel þótt það kunni að vekja furðu að slíkur listi skuli ekki hafa litið dagsins ljós fyrr en árið 2017 verði að hafa í huga að til gerð slíks lista hafi útheimt geysimikla vísindalega vinnu með söfnun og skráningu tuga þúsunda plöntutegunda. Og þessi vinna hefur ekki öll verið unnin á síðustu misserum heldur er byggt á starfi þúsunda grasafræðinga um allan heim á undanförnum öldum.

Meginástæða þess að ráðist var í þetta viðamikla verkefni á vegum BGCI var að útbúa verkfæri fyrir fólk sem vinnur að því að vernda sjaldgæfar trjátegundir sem hætta er á að geti dáið út. Global Tree Search verður hryggjarstykkið í fyrirbrigði sem kallast Global Tree Assess­ment, frumkvöðlaverkefni sem ætlað er að draga upp mynd af verndarstöðu allra trjátegunda í heiminum fyrir árið 2020. Með því er hægt að raða tegundunum upp eftir því hversu brýnt er að stuðla að vernd þeirra í þeirri von að engar trjátegundir glatist að eilífu.

Forvitnir lesendur sem vilja vita meira um allar þessar 60.065 trjátegundir sem í heiminum þrífast geta rýnt í listann og lesið fræðigreinina sem birtist í Journal of Sustainable Forestry. 

Fréttin á vef BGCI
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson