Helgina 7.-9. maí var haldin kynning á íslenskum viðarafurðum í samstarfi Skógræktar ríkisins og Byko.


Leitað var eftir samstarfi við fjölmarga einstaklinga sem hafa reynslu af vinnu með íslenskan við í handverki og iðnaði auk þess sem Skógræktin kynnti viðarnytjar af ýmsum toga.

Guðmundur Magnússon smiður á Flúðum kynnti stiga úr íslensku lerki og vakti handlistinn sérstaka athygli enda smekklega unnin.

Þá kynnti Guðmundur nýja gerð af utanhússklæðningu sem hann vann úr grönnu grisjunarefni frá Hallormsstað.

Nýtingin var svo góð að aðeins voru eftir þrjár ræmur af afsagi sem Guðmundur stillti upp á miðju myndinni.  Þynnurnar eru 45 cm langar en í mismunandi breiddum. 

Ólafur G.E. Sæmundsen kynnti möguleika flettisagarinnar í að breyta grisjunarbolunum í nýtanlegt efni og benti á ýmsa möguleika í gerð húsgagna og sýndi skiklur í göngustíga og pallagerð. 

Á þessum myndum sjást gestir skoða asparborð og bekkir sem Ólafur smíðaði.  Í pokunum var kurl sem vakti mikla athygli. Viðarstaflinn stækkaði eftir því sem á leið sýninguna.

Bjarni Þór Kristjánsson tálgari og eldsmiður var staðsettur í timburafgreiðslunni undir merki Viðarmiðlunar og glímdi þar við húsgagnagerð og tálgaði til fæturnar í tálguhestinum sem hann segir að hann sé bráðnauðsynlegur í slíkri vinnu.  Myndin til hægri sýnir bekk af frjálslegri gerðinni sem Bjarni smíðaði.

Inni í timburafgreiðslunni mátti sjá forkunnarfagran stól smíðaðan úr ösp af Gissuri Árnasyni á Hallormsstað.  Smíðaviðurinn féll til í grisjun í garðinum í Odda á Egilsstöðum.  Hönnunin er yfir 100 ára gömul frá fjallahéruðum í New York.

Í versluninni var ýmiskonar tréhandverk til sýnis.  Félagsmenn í Félagi trérennismiða voru staðsettir við innganginn í versluninni og þar renndu þeir blautann viðinn beint úr skóginum og vakti það athygli margra.

Innar í búðinni mátti sjá Örn Sigurðsson myndskera og húsgagnasmíðameistara sýna tréskurð ásamt fjöldanum öllum af fullunnum afurðum, gestabækur ofl.

Greinilegt var að bæði börn og fullorðnir nutu þess að skoða handverkið og ræða við smiðina og voru margir komnir gagngert til að kynna sér viðarvinnuna.

Systurnar Helga og Ragnhildur Magnúsardætur sýndu báðar tálgaða muni og útskorna, m.a. flest öll íslensku húsdýrin. 

Í heild sinni má segja að kynningin hafi tekist með ágætum þó segja megi að töluvert sé fyrir því haft að setja upp kynningu sem þessa en aðstandendur og þátttakendur eru sammála um að það hafi verið erfiðisins virði og eru alveg til í að endurtaka leikinn.

Texti og myndir: ÓO / maí 2004