FORHOT: Nýtt samstarfsverkefni á sviði skógvistfræði

Ein af afleiðingum jarðskjálftanna sem urðu á Suðurlandi í lok maí 2008 voru miklar breytingar á útbreiðslu jarðhita á svæðinu í kringum starfsstöð Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi.

Þetta hafði m.a. í för með sér að verulega tók að hitna undir 45 ára gömlum sitkagreniskógi sem vaxið hafði fram að því á venjulegum, hrollköldum, íslenskum jarðvegi.Upphitunin er mismikil undir skóginum, allt frá því að vera brot úr gráðu þar sem langt er niður á jarðhitann og upp í allt að +50 °C þar sem grynnst er. Jarðhitavatnið nær þó ekki að berast upp í rótarlagið og lítill lækur sem rennur í gegnum skóginn er algjörlega án áhrifa jarðhitavatns, þrátt fyrir að hann hitni upp í 32°C þegar hann rennur um svæðið.

Áhrif þessarar upphitunar urðu fljótlega augljós þar sem grenitrén á heitustu blettunum í skóginum drápust og blésu um koll. Náttúrulegur jarðvegshiti síðla sumars á Suðurlandi getur náð 12-15°C en í jarðhitaskóginum mældist jarðvegshiti allt að 50°C hærri en eðlilegt gæti talist. Þar sem jarðvegshitinn fór upp fyrir 40-50°C (35-45°C hlýnun í efstu 10 cm) þá virðist sem rætur trjánna „soðni“. Þar með voru dagar þeirra brátt taldir, trén drápust og/eða blésu um koll vegna  korts á rótarfestu. Heilbrigð tré eru þó enn til staðar á stórum svæðum þar sem upphitunin er á bilinu 0°C til 20°C.

Jarðhitaskógurinn hafði lengi kitlað rannsóknataugar vísindamanna hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, enda um einstakt vistkerfi að ræða. Víða hafa áhrif hækkandi hita á skógarvistkerfi verið rannsökuð en yfirleitt er um að ræða hækkaðan lofthita. Fáir, ef nokkrir, búa svo vel að geta rannsakað áhrif hækkandi jarðvegshita á  svipaðan hátt og gerist í jarðhitaskóginum. Á alþjóðlegri vísindaráðstefnu um áhrif loftslagsbreytinga á virkni norðlægra vistkerfa, sem haldin var í júní 2011 hér á landi, var jarðhitaskógurinn að Reykjum sóttur heim. Þessi risavaxna náttúrulega upphitunartilraun vakti óskipta athygli vísindamannanna og var það einróma álit þeirra að þarna væru á ferðinni mjög  spennandi aðstæður til rannsókna sem væru einstakar á heimsvísu. Í haust var því ákveðið að setja af stað forverkefni í  samstarfi nokkurra vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands og Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, með það að  markmiði að koma á fót alþjóðlegu rannsóknaverkefni á sviði jarðvegs- og skógvistfræði í jarðhitaskóginum á Reykjum.

Verkefnið hefur fengið nafnið „Jarðhitaskógurinn (Áhrif náttúrulega hækkaðs jarðvegshita undir sitkagreniskógi að Reykjum  í Ölfusi)“ á íslensku en á engilsaxnesku nefnist það „FORHOT (Natural soil warming in a Sitka spruce forest in Iceland)“.  Verkefnisstjóri er Bjarni Diðrik og Edda leiðir verkþátt Mógilsár. Auk þeirra eru níu aðrir íslenskir vísindamenn formlegir þátttakendur í verkefninu.

Það er skemmst frá því að segja að undirtektir innlendra og erlendra vísindamanna um að koma til samstarfs um þessar rannsóknir hafa verið mjög kröftugar. Núna, örfáum mánuðum eftir að verkefnið var fyrst kynnt erlendis, eru formlegir  átttakendur í því orðnir nítján talsins, frá fimm íslenskum háskólum/rannsóknastofnunum og fimm erlendum háskólum.



Mynd: Edda S. Oddsdóttir