Á morgun, laugardaginn 13. desember, verður markaðsdagur Félag skógarbænda á Héraði, Skógræktar ríkisins, Barra hf og Héraðs- og Austurlandsskóga haldinn í húsakynum Barra á Valgerðarstöðum í Fellum.

Ýmsar jólavörur verða til sölu á markaðnum, s.s. jólatré Skógræktar ríkisins, furu- og grenigreinar, arinviður, könglar, leikföng, sokkar, peysur, búta- og perlusaumur, jólakort ofl. Ýmislegt matarkyns verður einnig til sölu, t.d. kökur, skata, harðfiskur, hákarl og síld.

Skógarpúkarnir Pjakkur og Petra tala við yngri kynslóðina og kynna nýja diskinn sinn, en einnig verða ýmis tónlistaratriði á markaðnum. Kjötkrókur Austurlands verður valinn og gestum gefst færi á að smakka nýreykt hangikjöt. Fallegasta laufabrauðskakan verður einnig valin, auk þess sem hellt verður upp á ketilkaffi og boðið upp á rússasúpu.