Verkefni sem felast í útbreiðslu birkis eða annars trjágróðurs á stórum, samfelldum svæðum fellur vel að þeim markmiðum sem sett voru með Bonn-áskoruninni. Slík verkefni eru í gangi á Íslandi svo sem á Hekluskógasvæðinu, Hólasandi, Hafnarsandi, Þórsmörk og víðar. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson
Með verkefnum til útbreiðslu birkiskóga og birkikjarrs vilja íslensk stjórnvöld taka svokallaðri Bonn-áskorun og þar með auka landgæði, efla jarðvegsauðlindina og styrkja byggð í landinu. Óskað er eftir þátttöku sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila vítt og breitt um landið. Fjármunir renna til slíkra verkefna á komandi árum af framlögum ríkisins til loftslagsaðgerða.
Bonn-áskorunin er alþjóðlegt átak um útbreiðslu eða endurheimt skóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum og er skipulagt af alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Stjórnvöld hafa sett Íslandi það markmið innan Bonn-áskorunarinnar að auka verulega þekju birkiskóga og birkikjarrs en hún er nú 1,5% af flatarmáli landsins.
Tækifæri fyrir landeigendur
Markmiðið byggist á því að skilgreina í skipulagi ákveðið flatarmál lands, þar sem stefnt er að því að breiða út birkiskóga samhliða fjölbreyttri landnýtingu s.s. akuryrkju, ferðaþjónustu, nytjaskógrækt, loftslagsverkefnum af ýmsum toga sem og búfjárrækt. Fyrirmynd slíkra verkefna er t.a.m. Hekluskógaverkefnið þar sem auk endurheimtar birkiskóga fer fram fjölbreytt landnotkun og starfsemi. Verkefnið veitir landeigendum innan skilgreinds Bonn-svæðis aukin tækifæri til þátttöku í að breiða út skóga á ný, sér í lagi á svæðum þar sem gróður- og jarðvegseyðing hefur átt sér stað.
Hagræn áhrif fyrir byggðir landsins
Unnið er út frá því að svæði í eigu eða umsjá ríkis eða sveitarfélaga geti myndað n.k. kjarna hvers svæðis og þar er unnt að hefja aðgerðir strax. Lögð er rík áhersla á að verkefnin séu unnin í samstarfi allra hagsmunaaðila og stuðli að bættu ástandi lands, að Ísland geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og hafi hagræn áhrif á viðkomandi svæðum.
Nú þegar eru verkefni á svæðum í umsjá ríkisstofnana fjármögnuð af ríkinu en auknar fjárveitingar eru til loftslagsmála á næstu árum sem meðal annars yrði varið til þessa verkefnis. Lögð er áhersla á að verkefnin stuðli að atvinnu í heimabyggð. Áhugi fyrirtækja á fjármögnun verkefna sem hafa loftslagsávinning í för með sér hefur aukist mikið á síðustu árum og mörg sveitarfélög vinna að markmiðum um loftslagsmál, s.s. að kolefnisjöfnun. Þetta verkefni styður slík verkefni.
Sveitarfélögin hafa áhrif
Þegar Ísland tilkynnir um markmið sín innan Bonn-áskorunarinnar verður það gert á grundvelli samkomulags við hlutaðeigandi sveitarfélög og aðra samstarfsaðila. Því er óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til þátttöku í verkefninu, tillögum að svæðum umfram þau sem eru í umsjá ríkisstofnana og hvort og með hvaða hætti slík skilgreining gæti orðið hluti af skipulagi sveitarfélagsins.
Áformað er að Ísland geti kynnt markmið sín fyrri hluta sumarsins 2021. Markmið er að fá sem flest sveitarfélög til að taka þátt í verkefninu og væri æskilegt að afstaða sveitarfélagsins lægi fyrir í síðasta lagi 31. maí nk.
Nánari upplýsingar og kynning á verkefninu