Guðríður Baldvinsdóttir, sauðfjárbóndi, skógfræðingur og meistaranemi við LbhÍ, segist lengi hafa beðið eftir því að einhver réðist í það verkefni að rannsaka sauðfjárbeit í skógi. Að lokum hafi hún gefist upp á að bíða og ákveðið að gera þetta sjálf. Hún greinir frá verkefninu í viðtali við Bændablaðið í dag. Frumniðurstöður hennar eru að sauðfé sækist ekki eftir því að bíta lerki. Nýting á ræktuðum skógi til beitar geti orðið til þess að hægt sé að hlífa öðrum stærri landsvæðum við beit
„Mig hefur alltaf dreymt um að farið yrði í að samræma þessar tvær aðferðir, sauðfjárbúskap og skógrækt. Ég hef lengi beðið eftir því að einhver nemi myndi takast á við þetta verkefni, að rannsaka sauðfjárbeit í skógi, en gafst að lokum upp á að bíða og ákvað að sennilega yrði ég bara að gera þetta sjálf,“ segir Guðríður Baldvinsdóttir, sauðfjárbóndi í Lóni í Kelduhverfi, skógfræðingur og meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Hún hóf nám sitt haustið 2014 og hefur kynnt fyrstu niðurstöður úr rannsókn sinni um sauðfjárbeit í ræktuðum ungskógi og áhrif mismunandi beitarþunga á 9 til 14 ára rússalerki. Guðríður hefur að auki rekið fyrirtæki sitt, Sælusápur, undanfarin ár og með vaxandi þunga.
Guðríður er skógfræðingur frá Norska landbúnaðarháskólanum og starfaði eftir nám fyrst hjá Landgræðslunni og síðar sem svæðisstjóri hjá Norðurlandsskógum auk þess að vera sauðfjárbóndi í Lóni. Hún segir að eftir að landshlutabundnu skógræktarverkefnin hófust hér á landi upp úr síðustu aldamótum fari mest af nýskógrækt fram í löndum bænda. „Það vantar einfaldlega skipulagðar rannsóknir á áhrifum sauðfjárbeitar á ræktaða skóga,“ segir hún.
Áhugaverðast að skoða rússalerkið
Markmið með rannsókn Guðríðar er að skoða áhrif mismunandi beitarþunga sauðfjár á ólíka hæðarflokka ungs rússalerkis, en það er sú tegund sem langmest hefur verið notuð í nytjaskógrækt, einkum á Noður- og Austurlandi. Hún segir því að það hafi verið sú trjátegund sem áhugaverðast hafi verið að skoða. Áhrif á lifun trjánna og vaxtarlag eru skoðuð en einnig áhrif á framleiðni skógarins og magn og samsetningu botngróðurs.
Að beita í annarra manna skógi!
Guðríður hefur í samvinnu við Norðurlandsskóga afnotasamning af skógræktarsvæði í eigu stærsta sauðfjárbóndans í Kelduhverfi, í nágrenni við sig, eða á bænum Garði. Heildarstærð skógræktarsvæðisins þar er um 150 ha, mjög einsleitt mólendi. Afgirt tilraunasvæði innan skógræktarsvæðisins eru tæpir 24 ha.
„Ég er mjög þakklát fyrir að fá afnot af hluta þessa skógar, því það er ekki sjálfgefið að fá að setja upp tilraun sem nánast hefur það að markmiði að reyna að skemma skóginn. Það var skotið á mig á þorrablóti í vetur fyrir þá snilld mína að beita í annarra manna skóg, þegar ég ætti einn slíkan sjálf. Mér til varnar má segja að minn skógur er bæði of lítill og ekki nógu einsleitur til að gagnast í alvöru tilraun,“ segir Guðríður.
Uppsetning tilraunarinnar er með þeim hætti að girt eru af þrjú hólf þvert á aldur gróðursetninga og í þeim er svo þung beit, meðalþung og létt.
„Ég nota mínar eigin kindur, allt ungar ær sem allar eru komnar út frá sömu ættmóður. Utan hólfanna er ég svo með óbeitt viðmið, bætti við einu skóglausu gróðurviðmiði í heiðinni sunnan og vestan skógar, sem er í afréttarlandi Keldhverfinga og í hefðbundinni sumarbeit.
Þrjár bitnar greinar, kindurnar snertu ekki lerkið
Beitartilraunin mun standa í tvö sumur, 2015 og 2016, beitartímabilið er 75 dagar, en í fyrrasumar var beitt á tímabilinu frá 27. júní til 11. september. „Það ræðst svo í vor hvenær tilraunin hefst, eftir því hvernig vorar hér um slóðir en í fyrra var vorið seint á ferðinni. Ég miða þó við að sleppa í tilraunina á svipuðum tíma og öðru fé verður sleppt í afrétt,“ segir Guðríður.
Hún skoðaði beitarummerki fjórum sinnum yfir tilraunatímann í fyrra, í upphafi, síðan eftir 25 daga, 50 daga og 75 daga beit. Á sjötta hundrað lerkistofna voru skoðaðir í hvert sinn í beittu hólfunum. „Í lok tilraunarinnar hafði ég fundið þrjár, já þrjár bitnar greinar og tvo stofna sem voru með bitförum. Kindurnar einfaldlega snertu ekki lerkið. Mér rann eiginlega kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þessi áhrif eða ekki áhrif komu í ljós. Það er nefnilega martröð hvers vísindamanns sem eytt hefur óteljandi klukkustundum í undirbúning, uppsetningu og úttektir á tilraun að fá svo engar niðurstöður. Ég fór að velta fyrir mér hvort ég hefði haft beitarþungann of lítinn og fór að líta í kringum mig og sá þá hvernig gróðursetta birkið leit út. Það var nánast strípað af laufum og með brotnar greinar og langverst farið í þungbeitta hólfinu. Gögn úr gróðurmælingu sýndu líka mun eftir beitarþyngd og mér var töluvert létt að sjá það,“ segir hún.
Ekki hægt að gleypa allan heiminn
Guðríður segir að frumniðurstöður gefi til kynna að sauðfé sækist alls ekki eftir að bíta rússalerki, að minnsta kosti ekki á meðan annað er í boði og byggir þá niðurstöðu á tilraunum síðastliðins sumars.
„Ég ætla að endurtaka tilraunina næsta sumar og það verður spennandi að sjá hvort það sama verður upp á teningnum, en ég á frekar von á að svo verði. Gangi það eftir verður mjög spennandi að framlengja tilraunina lengra fram á haustið og sjá hvort haustbeit lúti öðrum lögmálum en sumarbeit. Það er hvort kindurnar sæki í trén þegar gróður fer að sölna. Það væri líka áhugavert að skoða vorbeitina og einnig að kanna með fleiri trjátegundir. En það er víst ekki hægt að gleypa allan heiminn með einu nemaverkefni,“ segir hún.
Nauðsynlegt að skoða mismunandi trjátegundir
Guðríður segir að ekki eigi að gera rannsóknir rannsóknanna vegna, nauðsynlegt sé að geta nýtt niðurstöður þeirra í hagnýtum tilgangi. Hún sendi út spurningakönnun til sauðfjárbænda sem jafnframt eru skógarbændur og spurði um afstöðu þeirra og skoðanir á beitarnýtingu skógar. Svörin eru að tínast inn þessa dagana, „en ég vil endilega hvetja þá sem ekki hafa svarað að gera það sem fyrst,“ segir hún og er jafnframt að leita upplýsinga um hvenær þeir hafi áhuga fyrir að nýta sína skóga og þá með hvaða fé.
„Niðurstöðurnar geta gefið til kynna hvar rannsóknarþörfin er mest í upphafi. Ef flestir vilja beita skóginn að vori og fram að upprekstri á afrétt væri vont ef einungis yrðu gerðar rannsóknir á haustbeit.“
Guðríður segir að nauðsynlegt sé að skoða mismunandi trjátegundir, kindur séu sólgnar í birki, um það hafi menn lengi haft vitneskju, „en hversu mikil ást þeirra er á þeim trjátegundum sem við höfum mest notað í skógrækt er alls ekki eins vel þekkt,“ segir hún.
Fáum dettur í hug að beita kálakurinn
Það sama gildi um beit í skógi og aðra beit, henni þarf að stjórna.
„Fáum sauðfjárbændum dettur í hug að beita kálakurinn um leið og fyrstu blöðin fara að gægjast upp úr honum, þó féð hafi aðgang jafnvel bæði að nýræktartúni og úthaga. Það kál verður ekki vöxtulegt að hausti. Öll beit á sinn stað og sinn tíma. Skógarbotn er að öllu jöfnu mun uppskerumeiri en annar úthagi og nýting á ræktuðum skógi til beitar gæti orðið til þess að hægt sé að hlífa öðrum stærri landsvæðum við beit,“ segir Guðríður.
Höfðinglegur styrkur réð úrslitum
Hún kveðst mjög heppin með leiðbeinendur við verkefnið, þau Bjarna Diðrik Sigurðsson, prófessor og brautarstjóra við skógfræði og landgræðslubraut Lbhí, og Sigþrúði Jónsdóttur beitarfræðing, sem er héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Suðurlandi.
„Verkefni af þessu tagi er mjög kostnaðarsamt, m.a. vegna girðinga sem þarf að setja upp. Ef ég væri að skoða hrossa- eða kúabeit þyrfti ég bara einn rafstreng og færanlega staura, en það þýðir ekki að bjóða kindum upp á svoleiðis. Ég fékk mjög höfðinglegan styrk frá Fagráði í sauðfjárrækt í gegnum þróunarfé sem gerði mér kleift að ráðast í þessa tilraun, ella hefði hún aldrei verið framkvæmd,“ segir Guðríður. /MÞÞ