Arnór Snorrason flytur erindi sitt á loftslagsdeginum í Hörpu 3. maí. Skjámynd úr upptöku af fundinum
Eitt af því sem fram kom á Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar nýverið var að kolefnisbinding íslenskra skóga hefur sautjánfaldast frá því sem var fyrir þrjátíu árum. Sömuleiðis var bent á að líffjölbreytni á Íslandi væri ekki ógnað með skógrækt og formaður Loftslagsráðs benti á að leggja þyrfti áherslu á aukna þekkingu, aukinn skilning og reynslu. Við mannfólkið þyrftum að bjarga lífríkinu til að bjarga okkur sjálfum. Loftslagsbaráttan snýst ekki um það eitt að bjarga lífríkinu. Ekki þýðir að aðgreina eðlisþættina og lífríkisþættina.
Umhverfisstofnun stóð fyrir loftslagsdeginum í samvinnu við ýmsar stofnanir og voru um tuttugu erindi flutt þar sem tekið var á fjölmörgum málum sem snerta loftslagsbaráttuna. Tveir fulltrúar frá Skógræktinni héldu erindi, Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar rannsóknasviðs, og Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs. Edda benti meðal annars á þann ávinning skógræktar á snauðu landi að þar snerist ástandið gjarnan úr losun í bindingu. Jafnframt væri timbur úr sjálfbærri skógrækt mikilvægur loftslagsávinningur skógræktar.
Skógarnir stækka og bindingin eykst
Í erindi Arnórs Snorrasonar kom fram að kolefnisbinding vegna skógræktar hefði sautjánfaldast á síðustu þrjátíu árum. Þrátt fyrir það væri skógrækt enn mjög umfangslítil á Íslandi miðað við nágrannalöndin. Flatarmál ræktaðra skóga hefur aukist um 38 þúsund hektara frá árinu 1990 og flatarmál náttúrulegra birkiskóga um ellefu þúsund hektara. Rætt var við Arnór í fréttum Ríkisútvarpsins og þar sagði hann að skógrækt væri sá þáttur í landnotkun á Íslandi sem skilaði nettóbindingu kolefnis og hefði gert það frá árinu 1990.
„Bindingin var mjög lítil 1990 enda var mjög lítið af ræktuðum skógi þá en hefur sautjánfaldast síðan. Við erum að binda um það bil jafnmikið, yfir 500 þúsund tonn af koltvísýringi, sem er eins og landbúnaðurinn er að losa. Þetta er svona um það bil 10% af allri þessari skuldbindandi losun á Íslandi sem er eitthvað um 4-5 milljónir,” segir Arnór í samtali við Ríkisútvarpið. Hann greindi frá þeirri spá Skógræktarinnar að árleg nýskógrækt á ræktuðum skógum yrði 2.500 hektarar frá og með árinu 2025 en benti á að aukin skógrækt væri einungis hluti af lausninni. Gera yrði betur á öllum sviðum þegar að kæmi að því að sporna við hlýnun jarðar með minnkaðri losun og aukinni bindingu. Skógrækt væri þar vissulega mikilvægur þáttur, en aðeins einn þáttur af mörgum.
Innviðir fyrir 5-7 þúsund hektara á ári
Skógarþekja er nú komin yfir tvö prósent landsins sem er ánægjulegur áfangi en þó lítið hlutfall miðað við lönd sem ekki eru eyðimerkurlönd. Hlutfallslega hefur þekjan aukist mikið að sögn Arnórs. „Svona hlutfallslega höfum við aukið það mjög mikið eins og við erum búin að sautjánfalda bindinguna frá því 1990 en við vorum að byrja í mjög litlu og færðum okkur yfir í dálítið mikið. Raunstærðirnar eru ekki stórar,” segir hann í viðtalinu.
Arnór var spurður hvort þetta tæki ekki langan tíma og sagði hann að vissulega byndu tré lítið fyrstu árin en þegar þau væru orðin tveggja til þriggja metra hæð væri bindingin orðin töluverð og mest yrði hún í 20-40 ára skógi. Aðspurður um æskilegan hraða nýskógræktar taldi hann að vel mætti fara upp í 5-7 þúsund hektara á ári án þess að lenda í vandræðum með innviðina. Jafnframt þyrfti að skoða aðra þætti líka sem geta haft áhrif eins og endurheimt votlendis og landgræðslu og slíkt sem eru mjög mikilvæg tól í þessu samhengi. Erindi Arnórs hefst á 1:32:40 á upptökunni.
Skógrækt er hluti af lausninni, ekki sú eina
Edda ræddi í sínu erindi um samhengi skóga og loftslags, sýndi kolefnishringrásir og benti á kosti bæði nytjaskóga og aukinnar útbreiðslu birkiskóga sem tæki í loftslagsbaráttunni. Með því að nota öflugar trjátegundir mætti binda mikið á tiltölulega litlu svæði og með því að nota timbur úr sjálfbærri skógrækt mætti búa til allt frá matvælum upp í háhýsi. Hvað varðar líffræðilega fjölbreytni benti Edda á að gott væri að hafa ekki einungis eina trjátegund. Niðurstöður Skógvistar, samstarfsverkefnis margra stofnana, sem m.a. birtust í grein í Náttúrufræðingnum árið 2013, sýndu að ekki skipti máli fyrir líffjölbreytni hvort ræktuð væru lauftré eða barrtré á grónu landi. Hún benti líka á að skógrækt snerist ekki bara um kolefni heldur um útivist, jarðvegsvernd, skjól og margt fleira. Og hún tók undir með Arnóri að skógrækt væri ekki „Lausnin“ í loftslagsmálunum heldur hluti af lausninni, eitt af tólunum sem nota þyrfti í loftslagsbaráttunni. Erindi Eddu hefst 4:08:28 á upptökunni.
Samhengi lífríkis og mannkyns
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, fór í lok loftslagsdagsins yfir það sem fram hafði komið á deginum. Hann sagði mikilvægt að lögð yrði áhersla á aukna þekkingu, aukinn skilning og þá reynslu sem aflað hefur verið. Mikið væri rætt um líffræðilega fjölbreytni og björgun lífríkisins. Í því sambandi mætti ekki aðskilja lífríkið og mannfélagið. Við mannfólkið þyrftum að bjarga lífríkinu til að bjarga okkur sjálfum. Loftslagsbaráttan snýst ekki um það eitt að bjarga lífríkinu að sögn Halldórs. Ekki þýðir að aðgreina eðlisþættina og lífríkisþættina. Erindi Halldórs hefst á 5:35:10 á upptökunni.