Dagana 19.-24. september fóru Þór Þorfinnsson skógarvörður á Austurlandi og Rúnar Ísleifsson skógræktarráðunautur til Suður-Grænlands, nánar tiltekið til nágrennis Narsasuaq, á vegum Skógræktar ríkisins. Megintilgangur ferðarinnar var að kortleggja væntanlegt skógræktarsvæði sem staðsett er í botni fjarðarins Tunulliarfik. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem ætlunin er að reyna ræktun skógar á um 120 hektara svæði. Ef þessi tilraun heppnast vel gæti þetta orðið vísir að umfangsmeiri nytjaskógrækt í samvinnu við bændur á svæðinu og þá væntanlega að íslenskri fyrirmynd.

 

Eftir að þeir Þór og Rúnar höfðu skoðað trjásafnið í Narsarsuaq og gróðursett þar víðiplöntur, sigldu þeir inn að svæðinu að morgni sunnudagsins 21. september. Með í för voru Kenneth Høegh, yfirmaður ráðgjafaþjónustu landbúnaðarins á Suður Grænlandi, Rasmus Valeur Christensen frá fiski-, veiði- og landbúnaðarráðuneyti Grænlands, Jostein Gard, garðyrkjumaður hjá rannsóknarstöðinni í Upernaviasuk og Naotaka Hayashi, skógfræðingur og nemi í mannfræði Hákskólann í Edmonton í Canada. Ekki er hægt að segja að veðurguðirnir hafi verið ferðafélugunum hliðhollir því slydda og rigning var fyrstu tvo dagan og hitastig í kringum frostmark. Þegar haldið var til baka seinni partinn á þriðjudag til Narsarsuaq var hinsvega komið hið ágætasta veður.

 

Kortlagningin gekk vel og leist starfsmönnum Skógræktar ríkisins allvel á svæðið til skógræktar, en það liggur í hlíð er snýr mót vestri og niður að sjó. Hluti svæðisins er vaxinn birkikjarri, efri hluti svæðisins er víða ófrjósamur, stutt niður á klöpp og stórgrýti mjög áberandi þegar farið er þar um. Neðri hluti svæðisins er hinsvegar álitlegri og mun frjósamari.

 

Við kortlagða svæðið eru tveir eldri skógarreitir sem gefa góð fyrirheit um möguleika skógræktar á svæðinu. Uppistaðan í þeim er rússalerki, skógarfura en einnig er nokkuð um rauðgreni, stafafuru og fleiri tegundir. Rússalerkið er mjög vöxtulegt og grenið og stafafuran þokkaleg. Árangurinn er í raun mjög góður ef tekið er tillit til smæðar reitanna. Í minni reitnum eru hinar þekktu Rosenvingens-skógarfurur sem gróðursettar voru árið 1892.

 

Í kjölfar þessarar ferðar mun verða unnin ræktunaráætlun fyrir svæðið sem kortlagt var og mun það verða samstarfsverkefni ráðgjafaþjónustu landbúnaðarins á Suður Grænlandi, rannsóknarstöðinni í Upernaviasuk og Skógræktar ríkisins.

 

Þór Þorfinnsson í öðrum eldri skógarreitnum.

 

Texti og myndir: Rúnar Ísleifsson og Þór Þorfinnsson.