Garðsárreitur er austan eða norðan við Þverárgil, vinstra megin á myndinni, og þar voru einar síðust…
Garðsárreitur er austan eða norðan við Þverárgil, vinstra megin á myndinni, og þar voru einar síðustu birkiskógaleifar við Eyjafjörð á fyrri hluta síðustu aldar. Ljósmynd af kjarnaskogur.is

Skógræktarfélag Eyfirðinga ríður á vaðið og opnar formlega landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi. Félagið býður fólki að koma í Garðsrárreit í Eyjafirði fimmtudaginn 22. september kl. 17 og tína þar fræ af birki. Verkefnastjóri átaksins verður með fræðslu um birkifræsöfnun og auðvitað verður alvöru skógarstemmning með ketilkaffi á könnunni og safa fyrir börnin.

Í Eyjafirði er nú gott birkifræár eins og víðast hvar á Norður-, Austur- og Suðausturlandi og því fullt af fræi til að tína, til dæmis í Garðsárreit. Að söfnun lokinni býður Skógræktarfélag Eyfirðinga, sem sér um og ræktar Garðsárreit, upp á ketilkaffi og safa.

Nánari upplýsingar um söfnunina er að finna á vefnum birkiskogur.is og um Garðsárreit á vefnum kjarnaskogur.is.

Verndun og ræktun Garðsárreits var fyrsta verkefni Skógræktarfélags Eyfirðinga eftir stofnun 1930 og hefur birkið í Þverárgili verið friðað þar frá árinu 1931. Einmitt í Þverárgili var einn örfárra staða í gervöllum Eyjafirði þar sem finna mátti birkiskógaleifar þegar vörn var snúið í sókn með friðun slíkra leifa á fyrri hluta síðustu aldar. Nú er birki mjög að breiðast út í firðinum með minnkandi beit, aukinni friðun og skógrækt.

Gott er fyrir væntanlega þátttakendur í söfnuninni í Garðsárreit að vita að leggja má bílum við suðausturenda reitsins sem er á norðanverðum gilbarmi Þverárgils. Ekið er Eyjafjarðarbraut eystri og beygt við Þverárbrú inn á  afleggjarann að býlinu Garðsá.

Landsátak í þriðja sinn

Auglýsing fyrir landssöfnun á birkifræi

Þetta er þriðja árið sem átakið „Söfnum og sáum birkifræi“ fer fram. Þjóðin tók vel við sér þegar efnt var til átaksins fyrst 2020 og mikið safnaðist af fræi sem meðal annars var notað í vélsáningu á stórum uppgræðslusvæðum. Í ár er fræ að finna á birki í öllum landshlutum en mest er uppskeran þó á Norður-, Austur-, og Suðausturlandi. Ástæða er til að hvetja fólk um allt land til að leggja sitt af mörkum og annað hvort safna fræi og skila því á móttökustöðvar eða sá fræinu sjálft á svæðum þar sem vilji er til að klæða land birkiskógi eða -kjarri.

Bakhjarlar verkefnisins eru Prentmet Oddi sem útvegar söfnunaröskjur til að tína í fræ og söfnunarkassa til að taka við öskjum með fræi. Bónus og Olís verða með öskjur sem fólk getur sótt í verslanir og þjónustustöðvar og þar verða líka kassarnir sem skila má fræinu í. Þá vinnur Landvernd einnig að því að virkja fólk til þátttöku og að verkefninu vinna ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Kópavogs, Lionshreyfingin og Kvenfélagasamband Íslands. Loks má þess geta að þar sem engin Bónus- verslun eða Olís-stöð er í Norður-Þingeyjarsýslu má sækja sér öskjur og skila fræi í verslunina í Ásbyrgi í Kelduhverfi.

Texti: Pétur Halldórsson