Það var hátíðleg morgunstund í Laugarnesskóla síðastliðinn föstudagsmorgun þegar gengið var frá þátttöku skólans í verkefninu ?Lesið í skóginn ? með skólum?. Allir nemendur skólans marseruðu í litlum hópum að suðurenda skólalóðarinnar þar sem búið var að kveikja lítið bál og koma fyrir pöllum og púlti. Hluti nemenda hélt á heimagerðum handblysum og sást vel á andlitum þeirra að hlutverkið var tekið alvarlega. Sungin voru skógarlög af miklum krafti.

Þau Helgi Grímsson skólastjóri, Rúna Björg Garðarsdóttir, fyrir hönd Kennarafélags Laugarnesskóla og Ólafur Oddsson, fyrir hönd Skógræktar ríkisins og annarra samstarfsaðila, undirrituðu samstarfssamninginn. Og eins og við fyrri undirskriftir, tók skólastjóri við veðurmælinum, tákni verkefnisins.

Tilgangur verkefnisins ?Lesið í skóginn - með skólum? er að safna reynslu og þekkingu um skipulega fræðslu um skóga og skógarnytjar í grunnskólum. Það verður m.a. gert með því að efla útinám sem nær til allra námsgreina og aldursstiga í skólanum. Markmiðið er m.a. að nemendur fræðist um vistfræði skógarins og skógarnytjar en einnig að efla samþættingu útináms við sem flestar námsgreinar sem kenndar eru í skólanum.

Kennarafélag Laugarnesskóla á landareign í Mosfellsdal sem heitir Katlagil. Í Katlagili hefur í áratugi farið fram markvisst og uppbyggilegt skólastarf um skóginn. Með þátttöku í verkefninu ?Lesið í skóginn ? með skólum? verður lögð áhersla á að efla það starf sem fram fer í Katlagili. Einnig er hugmyndin að byggja upp grenndarskóg á skólalóð Laugarnesskóla. Með hugmynd um grenndarskóg á skólalóð er verið að stuðla að því enn frekar að skólalóðin sé námslegur vettvangur og opnar enn frekar fyrir samþættingu  skógarmenningar og daglegs skólastarfs.

Laugarnesskói er fimmti skólinn sem tekinn er inn í verkefnið ?Lesið í skóginn ? með skólum? með formlegum hætti og er þar með orðinn Skógarskóli. Flúðaskóli og Varmalandsskóli eiga eftir að undirrita samning þess efnis. Að því loknu verða sjö Skógarskólar á landinu, en auk Laugarnesskóla hafa Hallormsstaðaskóli, Hrafnagilsskóli, Andakílsskóli og Kleppjárnsreykjaskóli verið skráðir í verkefnið með formlegum hætti.