Lerki úr Hallormsstaðaskógi verður að hluta til notað til smiði nýja þjónustuhússins á Vatnsskarði e…
Lerki úr Hallormsstaðaskógi verður að hluta til notað til smiði nýja þjónustuhússins á Vatnsskarði eystra. Mynd: Þór Þorfinnsson

Bætir mjög aðstöðu ferðafólks

Þjónustuhús sem nú er verið að reisa á Vatnsskarði eystra verður að hluta klætt lerki úr Hallormsstaðaskógi. Pallar umhverfis það verða sömuleiðis smíðaðir úr Hallormsstaðalerki. Húsið bætir mjög aðstöðu ferðafólks sem kemur til að skoða Stórurð og annað í náttúru Dyrfjalla.

Árið 2013 stóðu sveitarfélögin Fljótsdals­hérað og Borgarfjarðarhreppur sameigin­lega að hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla. Partur af samkeppninni fólst m.a. í því að hanna þjónustuhús á Vatnsskarði. Í hönnunarsamkeppninni sigraði Norðmaðurinn Eirik Rønning Andersen og hefur hann unnið verkefnið áfram ásamt verkfræðistofunni EFLU á Egilsstöðum.

Lögun þjónustuhússins vísar í Dyrfjöllin. Þetta eru tvær samtengdar einingar, samtals um 16 m2. Öðrum megin verða snyrtingar en hinn helmingurinn hefur fengið heitið Norðurljósastofa. Þar verður að finna upplýsingar um svæðið og hægt að njóta stórbrotins útýnisins yfir Héraðsflóa og inn Héraðið. Góð aðstaða verður einnig fyrir utan húsið á trépalli sem smíðaður verður úr lerki úr Hallormsstaðaskógi auk þess sem ein hlið hvors hluta hússins verður klædd með lerki frá Hallormsstað.

Um verkið sér VHE vélaverkstæði á Egilsstöðum og var hafist handa við það á liðnu ári. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið til notkunar í júní í sumar. Að verkefninu standa sveitarfélögin beggja vegna Vatnsskarðs, Fljótsdals­hérað og Borgarfjarðarhreppur, með myndarlegum styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.


Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Óðinn Gunnar Óðinsson