Er ég var staddur á Heathrow flugvelli í lok apríl s.l. rambaði ég inn í apotek sem þar er til að kaupa mér magnyl.  Rakst ég þar á hillu þar sem var ótal fjöldi meðalaglasa (dropateljaraglasa eins og í gömludaga) og í þeim blómameðöl, eða ?flower remedies? á ensku.  Þar sem meðölin voru í vökvaformi var þetta það sem gekk undir nafninu mixtúrur hér áður fyrr.  Ekki stóð á glösunum við hverju mixtúrurnar voru; þetta voru bara mixtúrur.  Hver mixtúra var hins vegar kennd við ákveðna plöntutegund og vakti lerkimixtúran sérstaklega athygli mína (að sjálfsögðu). Við lestur á flöskumiðanum kom í ljós að þarna var á ferðinni lerkiblómasafi þynntur í vínberjaalkahóli (þ.e. koníaki).  Fyrir forvitnissakir keypti ég lerkimixtúruna ? 20 ml á 7 pund ? fremur dýr dropinn sá.

Þegar heim kom sýndi ég Guðmundi Ólafssyni flöskuna sem dæmi um hvernig mætti græða stórlega á skógarafurðum.  Hann strax á vefinn og fann vefsíðu Bach fyrirtækisins sem framleiðir mixtúrurnar.  Þar fannst eftirfarandi lýsing á gagnsemi lerkimixtúrunnar dýru (í þýðingu höfundar):

Bach blómamixtúrur nr. 19 lerki er mixtúra fyrir fólk sem finnst það ekki vera eins gott og annað fólk og allt sé dæmt til að mistakast hjá því.  Því skortir sannfæringu um eigin getu til að ná árangri og lætur því oftar en ekki eiga sig að reyna, ólíkt álmfólki þar sem tilhneigingin til að taka of mikið að sér veldur stundum efa.  Mixtúran aðstoðar fólk í þessari stöðu til að halda áfram þrátt fyrir efasemdir um að það nái árangri.  Aukin geta til að taka áhættu og taka þátt í lífinu þýðir að það fær meira út úr lífinu.  Mixtúran er fyrir þá sem álíta sig ekki eins góða eða flínka og það fólk sem þeir umgangast, sem búast við að þeim mistakist hlutina, sem finnst að þeir muni aldrei ná árangri og reyna því ekki nægilega á sig til að ná árangri.

Þá vitum við það!  Lerkiblómasafi (n.b. í koníaki) læknar skort á sjálfsáliti.  Greinilega óþörf mixtúra fyrir Þingeyinga, enda situr glasið óopnað á skrifborði mínu.


ÞE