Forsíða skýrslunnar „A forest-based circular bioeconomy for southern Europe: visions, opportunities and challenges“
Samhæfing hagsældar og náttúrverndar í þróun líhagkerfisins krefst skynsamlegrar aðlögunar á hverju svæði fyrir sig. Í nýrri skýrslu evrópsku skógastofnunarinnar EFI er fjallað um aðlögun svæða í Suður-Evrópu að hugmyndum um lífhagkerfi framtíðarinnar.
Skýrslan kallast á ensku A forest-based circular bioeconomy for southern Europe: visions, opportunities and challenges. Þar er fjallað um lífhagkerfið sem undanfarin ár hefur verið haldið á loft sem umhverfisvænni lausn sem leyst gæti af hólmi olíuhagkerfi nútímans. Mikið hafi verið gert úr því að með lífhagkerfinu sé komin leið til að gera nokkurs konar lífbyltingu á helstu innviðum efnahagskerfisins, allt frá mannvirkjagerð upp í samgöngur og tísku með því að nýta til fullnustu nýjustu uppgötvanir á sviði líftækni og nanótækni. Á komandi tíð verði lífmassi notaður í háþróuð lífhráefni, framleiðsluvörur og þjónustu. Um leið verði dregið eins og mögulegt er úr notkun á óendurnýjanlegum auðlindum og hráefnum.
Í skýrslunni er þó bent á að ekki sé sjálfgefið að setja samasemmerki milli lífhagkerfisins og sjálfbærni í umhverfismálum. Auk þess henti það sama sannarlega ekki alls staðar. Skipuleggja þurfi vandlega framleiðslu, söfnun og úrvinnslu lífmassa frá ólíkum sjónarhornum. Þróunin verði að taka mið af hugmyndum um hringrásir, lágmarksútblástur koltvísýrings og hámarksnýtingu hráefna en einnig staðbundnum eða svæðisbundnum skilyrðum og aðstæðum. Lausna verði að leita á ólíkum sviðum samfélags og efnahagslífs.
Í sunnanverðri Evrópu hefur stefna í lífhagkerfismálum aðallega snúist um að þróa þau svið sem byggjast á lífrænum endurnýjanlegum hráefnum, sérstaklega í landbúnaði. Þetta þarf að tengja betur við við heildarstefnu í umhverfismálum og iðnaði, segja skýrsluhöfundar. Oft gangi fólk út frá því að þessi verkefni leiði til sjálfbærni þótt svo þurfi ekki endilega að vera. Litið sé á skóga sem sjálfsagða uppsprettu lífmassa en um leið eigi þeir að veita mikilvæga vistkerfisþjónustu. Litla leiðsögn sé að finna um hvernig komast megi yfir þær hindranir sem í veginum eru og tryggja að aukin notkun skógarafurða leiði af sér þann jákvæða efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega ávinning sem til er ætlast.
Fjallað er um þessa skýrslu evrópsku skógastofnunarinnar EFI á vef EFIMED sem er Miðjarðarhafsdeild EFI. Haft er eftir Bittor Oroz Izagirre, aðstoðarráðherra landbúnaðar-, fiskveiði- og matvælamála í Baskalandi, að skýslan taki á þeim þáttum sem taldir séu skipta sköpum svo gjörbylta megi framleiðsluháttum og neyslukerfum samfélagsins í þessum hluta álfunnar. Tekið sé tilli til þess að á svæðinu séu landshættir af margvíslegum toga og landnotkun eftir því ólík. Sú hugmynd um hringlaga lífhagkerfi sem fjallað er um í skýrlunni geti haft afgerandi áhrif á þróun mála. Í henni sé fólginn ásetningur um að samhæfa efnahagslega þróun og umhverfisvernd þegar sagt hefur verið skilið við olíuhagkerfið.
Skýrsluhöfundar lögðust yfir þann möguleika að klæðskerasauma hringlaga lífhagkerfi fyrir aðstæður í Suður-Evrópu. Samhliða því að treysta í auknum mæli á endurnýjanleg hráefni úr lífríkinu yrði að bæta nýtingu hráefnanna og tryggja hringrásir þeirra. Hringlaga lífhagkerfi byggist á endurnýjanlegum, endurnýtanlegum, endurvinnanlegum og lífbrjótanlegum hráefnum. Líta þurfi á þetta sem eina samhangandi heild og skipuleggja hlutina út frá aðstæðum á hverjum stað eða svæði. Rætt er um náttúruferðamennsku, stuttar virðiskeðjur og að meta þurfi til fjár þau efnislegu verðmæti og þjónustu sem skógarnir veita fólki. Geysimiklir möguleikar felist í slíkum þáttum fyrir þróun efnahags- og atvinnulífs á mörgum svæðum. Algengt sé að slíkar áherslur sjáist í svæðisbundnum áætlunum og stefnu en horfa ætti meira til þeirra við stefnumótun á sviði lífhagkerfismála.
Þá er einnig í skýrslunni velt upp ýmsum þáttum sem drífa áfram eða liðka fyrir þróun lífhagkerfisins í Suður-Evrópu og sömuleiðis ýmsum hindrunum sem eru í veginum. Í skýrslunni er sérstaklega litið á lífhagkerfisstefnu í Frakklandi, Portúgal, á Ítalíu og Spáni og sömuleiðis stefnu Evrópusambandsins alls. Um leið og rýnt er í hvað skógarnir gætu lagt til hringlaga lífhagkerfis er varpað ljósi á ýmsar nýjungar í framleiðslu og tækni á þessu sviði, til dæmis í húsbyggingum, en einnig er hugað að vannýttum verðmætum sem felast í öðrum afurðum skóganna en trjáviði, ekki síst ýmiss konar vistkerfisþjónustu sem kemur samfélögum fólks til góða.
Sem fyrr er kjarni málsins sá að laga sig að og vinna gegn loftslagsbreytingum. Ef vel á að ganga verðum við að fá fólk til liðs við okkur, segja greinarhöfundar, fólk hjá hinu opinbera jafnt og í einkafyrirtækjum, fyrirtæki jafnt sem góðgerðarstofnanir eða -félög, ríkisvaldið jafnt sem almenna borgara. Með samtakamættinum megi breyta því hvernig við förum með og nýtum náttúrlegar auðlindir og hvernig við hönnum, framleiðum og neytum vöru og þjónustu.
Tilvísun: Martinez de Arano, I., Muys, B., Corrado, T., Pettenella, D., Feliciano, D., Rigolot, E., Lefevre, F., Prokofieva, I., Labidi, J., Carnus, J.M., Secco, L., Fragiacomo, M., Follesa, M., Masiero, M. and Llano-Ponte, R., 2018. “A forest-based circular bioeconomy for southern Europe: visions, opportunities and challenges” Reflections on the bioeconomy. European Forest Institute, 124pp.
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson