Íslensk jólatré best fyrir umhverfið og efnahaginn
Umhverfisáhrif af jólatrjám eru minnst ef valin eru lifandi íslensk tré og nettóáhrif íslensku trjánna geta jafnvel verið jákvæð þegar upp er staðið. Þau hafa líka jákvæð áhrif á íslenskan efnahag. Gervijólatré eru versti kosturinn því framleiðsla þeirra, flutningur og förgun hefur margvísleg áhrif á umhverfið. Innfluttum, lifandi trjám fylgja líka neikvæð umhverfisáhrif. Ef öll jólatré á markaðnum hérlendis væru íslensk gætu 10 fjölskyldur haft lifibrauð sitt af framleiðslu þeirra.
Talið er að milli 40 og 50 þúsund jólatré séu keypt hérlendis á hverju ári og hlutur íslenskra trjáa sé um fjórðungur af því. Innflutt lifandi tré eru að langmestu leyti nordmannsþinur frá Danmörku sem ekki er ræktaður að neinu marki á Íslandi. Loftslagið hér er hentugra fyrir tegundir eins og rauðgreni, blágreni, stafafuru og fjallaþin. Með kvæmatilraunum og kynbótum sem nú er unnið að má búast við að framboð á íslenskum fjallaþin aukist að mun í fyllingu tímans og sú tegund ætti að falla aðdáendum nordmannsþins vel í geð.
Danski nordmannsþinurinn þungbær umhverfinu
Nordmannsþinurinn danski þykir fallegur en ræktun hans hefur veruleg umhverfisáhrif. Trén eru ræktuð í stórum stíl á afmörkuðum ökrum, úðuð með ýmsum varnarefnum til að koma í veg meindýr og sjúkdóma og borinn á þau tilbúinn áburður. Olíuknúnar vélar eru notaðar við ræktun og umhirðu trjánna og flutningur þeirra til neytenda útheimtir olíu og útblástur líka.
Dönsku umhverfisverndarsamtökin Danmarks Naturfredningsforening vekja á hverju ári athygli á því að ræktun nordmannsþins til jólatrjáa sé slæm fyrir umhverfið. Hún geti mengað bæði grunnvatn og yfirborðsvatn en líka stofnað dýra- og plöntulífi í hættu. Ábyrgð neytenda sé því mikil sem kaupa slík tré. Samtökin mæla sérstaklega með hinu sígilda rauðgreni sem lengi vel var helsta jólatré Dana. Rauðgreni megi rækta með miklu minni efnanotkun og helst eigi fólk að leita eftir lífrænt ræktuðum rauðgrenitrjám.
Fjölþættir kostir íslensku trjánna
Fyrir Íslendinga ætti valið að vera auðvelt. Litlu munar að íslensk jólatré geti talist lífrænt ræktuð. Þegar „jólatré“ eru gróðursett á Íslandi er einungis sett u.þ.b. ein matskeið af tilbúnum áburði við hvert tré. Annars eru engin efni notuð og einu neikvæðu umhverfisáhrifin eru af flutningi trjánna. Þessi áhrif eru hverfandi miðað við umhverfisáhrif innfluttra jólatrjáa.
Íslensk jólatré eru oftast nær tekin úr skógum þar sem verið er að rækta nytjavið. Jólatrén eru gjarnan aukaafurð og líta má á þau sem hluta af nauðsynlegri grisjun skógarins. Grisjunin stuðlar að hraðari vexti skógarins, meiri bindingu kolefnis, meiri viðarmyndun og verðmætari uppskeru. Þannig má rökstyðja að umhverfisáhrif af íslenskum jólatrjám séu í versta falli lítil eða engin og jafnvel beinlínis jákvæð.
Með réttri meðhöndlun geta íslensk jólatré haldið barrinu vel fram á þrettándann, sérstaklega fjallaþinur og stafafura. Furan heldur barrinu ekki síður en danski nordmannsþinurinn og jafnvel betur. Ef trénu er fargað á sómasamlegan hátt eftir jólin getur það nýst sem t.d. viðarkurl eða jarðvegsbætandi molta og það er hluti af hinum jákvæðu umhverfisáhrifum íslensku trjánna. Þau hafa jákvæð umhverfisáhrif út yfir gröf og dauða, ef svo má segja. Hvað gætum við beðið um betra?
Gervitré slæmur kostur
Óbreyttur neytandinn kann samt sem áður að álykta sem svo að plasttré sem nota má mörg ár í röð hljóti að vera besti kosturinn, bæði fyrir pyngjuna og umhverfið. Samt er það svo að gervitrén eru talin hafa mörgum sinnum meiri neikvæð umhverfisáhrif en lifandi tré. Í fyrsta lagi er hráefnið í gervitrén að verulegu leyti plast sem gert er úr jarðolíu. Framleiðslan er orkufrekur iðnaður sem að mestu er starfræktur í Kína þar sem orkan er að mestu framleidd með kolum. Plastefnin í trénu geta innihaldið ýmis efni sem notuð eru til að ná fram ákveðnum eiginleikum í plastinu en þessi efni geta verið heilsuspillandi og mengandi. Olíu þarf líka til að flytja trén til kaupendanna.
Að vísu má ætla að umhverfisáhrif gervijólatrjánna minnki eftir því sem fólki tekst að láta þau endast lengur. Trén eru sögð geta enst árum og jafnvel áratugum saman. Þó verður að teljast hæpið að mikil prýði sé að gervijólatré þegar það hefur velkst mörgum sinnum milli geymslu og stofu. Þau verða fyrir hnjaski og sífellt koma líka nýjungar á markaðinn sem freista kaupagleði neytandans. Þegar farga þarf gamla gervitrénu kemur í ljós að ekki er með neinum hætti hægt að endurvinna það eins og fram kemur á vef Earth911, bandarískrar upplýsingaveitu um endurvinnslumál. Gervijólatré enda yfirleitt á sorphaugum þar sem þau eru margar aldir að brotna niður.
Hvað ef öll jólatré væru íslensk?
Setjum sem svo að við lifðum í besta heimi allra heima og öll jólatré á íslenskum heimilum væru lifandi, íslensk tré. Ef við gerum ráð fyrir að smásöluverð jólatrés sé að meðaltali 8.000 krónur og Íslendingar kaupi 50.000 jólatré verður veltan 400 milljónir króna á ári. Setjum sem svo að helmingur smásöluverðsins renni til skógarbóndans, 200 milljónir. Til að hafa dæmið einfalt getum við gert ráð fyrir að helmingur af innkomu skógarbóndans verði eftir í vasa hans þegar kostnaður hefur verið dreginn frá. Það yrðu samtals 100 milljónir króna. Ef við segjum að fjölskylda þurfi að hafa 10 milljónir í árstekjur kemur í ljós að 10 íslenskar fjölskyldur gætu lifað af því að rækta jólatré. Þessar fjölskyldur byggju vítt og breitt um landið og jólatrjáaræktin myndi þannig styrkja búsetu í landinu og gera störf í dreifbýli fjölbreytilegri.
Valið virðist því auðvelt. Veljum íslensk tré, verndum náttúruna, spörum gjaldeyri og styðjum skógræktarstarf í landinu.