Vaxandi áhugi er á því erlendis að nota viðarkolaafurð sem nefnd er „biochar“ á ensku og nefnd hefur verið lífkol á íslensku til þess að bæta jarðveg og auka vöxt nytjaplantna. Til þessa hafa þó ekki margar rannsóknir verið gerðar til þess að skýra hvernig lífkolin hafa áhrif á plöntuvöxt. Nýleg grein í tímaritinu Plant and Soil staðfestir að lífkol (samsvarandi 10 tonnum á ha) geta aukið uppskeru hveitis um allt að 250% í ákveðnum jarðvegi (ferrosol). Lífkolin hækkuðu sýrustig, juku jónskiptahæfni jarðvegsins, stuðluðu að aukinni upptöku niturs og kalsíums. Auk hveitis voru áhrif könnuð á vöxt sojabauna og hreðku, þar sem veruleg vaxtaraukning kom fram í ferrosol-jarðveginum. Í hinni jarðvegsgerðinni (calcarosol) jókst vöxtur sojabauna, en minnkaði hjá hveiti og hreðkum þegar lífkolum var blandað í jarðveginn. Í öllum framangreindum tilvikum var tilbúinn áburður notaður. Þegar ekkert var borið á juku lífkol aðeins vöxt hjá hreðkum.

Ástæða er fyrir okkur Íslendinga að setja af stað tilraunir með áhrif lífkola á vöxt plantna í íslenskum jarðvegi. Komi í ljós að áburðarnýting batni og uppskera aukist með notkun lífkola, er ekkert því til fyrirstöðu að framleiða viðarkol til iðnaðar og lífkol fyrir landbúnað, skógrækt og landgræðslu hér á landi. Á næstu árum og áratugum munu skógar okkar gefa af sér mikið magn af viði og lífmassa sem nýta má í þessa framleiðslu. Að auki er þessi framleiðsla kjörin til þess að taka kolefni úr umferð, vegna þess að það tekur kolin aldir að brotna niður og losa kolefnið út í andrúmsloftið.

 

Texti: Halldór Sverrisson
Heimild: Van Zwieten et al. (2010). Plant and Soil 327: 235-246.