Fyrir síðustu jól sendi Skógrækt ríkisins frá sér vandað dagatal með fallegum ljósmyndum Þrastar Eysteinssonar og hugleiðingum um skóginn og umhverfi hans. Á forsíðu dagatalsins var jóla- og áramótakveðja og gilti dagatalið því sem árlegt jólakort frá Skógræktinni. Góð viðbrögð voru við þessari nýbreytni, svo góð að prenta þurfti sérstakt aukaupplag, svo mikil var eftirspurnin.

Nú hefur verið ákveðið að fara sömu leið fyrir næstu jól og þemað á næsta dagatali verður ?Maðurinn og skógurinn?. Í því tilefni hefur verið stofnað til samkeppni á meðal starfsmanna Skógræktar ríkisins um ljósmyndir á dagatalið fyrir árið 2005.

Sérstök dómnefnd hefur verið skipuð í þessum tilgangi og eiga þátttakendur í samkeppninni að senda mynd til dómnefndar einu sinni í mánuði. Við myndatökuna ber að hafa í huga tengingu við viðkomandi mánuð og myndirnar þurfa að hafa eitthvað með skóga og athafnir manna í skógi að gera og mega ekki hafa birst annars staðar áður.

Þegar upp er staðið er meiningin að dómnefnd hafi valið mynd fyrir hvern mánuð á dagatalinu, auk forsíðumyndar. Verðlaun verða síðan veitt fyrir þær myndir sem fyrir valinu verða.