Umdeild nýtingaraðferð
Tíðindin vöktu talsverða athygli í Svíþjóð enda hefur gjörfelling verið gagnrýnd mjög þar í landi og orðið umdeild milli skógargeirans og umhverfisverndarfólks. Meðal annars hefur verið bent á að við þessa aðgerð losni mikið kolefni út í andrúmsloftið. Aðferðin hefur sömuleiðis verið gagnrýnd sem alvarlegt inngrip í lífríki skógarins þar sem hún svipti fugla og önnur skógardýr búsvæðum sínum, spilli eðlilegum hringrásum í lífkerfinu og svo framvegis. Á móti hefur til dæmis verið bent á að gjörfelling líkist inngripum náttúrunnar sjálfrar þegar stormar eða eldar fella skóg á stórum svæðum. Einnig að skógur vaxi fljótt upp á svæðum þar sem tré hafa verið felld og svo framvegis.
Tilhneigingin hefur engu að síður verið sú, ekki bara í Svíþjóð heldur víðar um Evrópu, að skógareigendur snúi sér frekar að öðrum aðferðum við timburöflun og endurnýjun skógar svo sem stakfellingu þar sem stærstu trén eru jafnóðum tekin út úr skóginum þannig að aldrei myndist skóglaus svæði. Allar þekktar aðferðir hafa þó sína kosti og galla. Meira að segja sú aðferð að friða skóg hefur ákveðna ókosti í kolefnissamhenginu. Villtur skógur nær nefnilega á endanum kolefnisjafnvægi. Ef gömul tré eru látin drepast úr elli rotna þau í skóginum. Þá losnar koltvísýringurinn sem trén bundu aftur út í andrúmsloftið. Binding yngri trjáa gerir ekki mikið meira en að vega upp losunina frá gömlu trjánum sem drepast og nettóbinding skógarins verður því lítil. Slíkur skógur er ekki í vexti heldur í hringrás. Því er talið jákvætt að taka timbrið úr skóginum í stað þess að láta það rotna og nýta það, meðal annars í hluti og mannvirki sem standa í ár, áratugi eða aldir. Þar með geymist kolefnið miklu lengur en í rotnandi trjám í skóginum. Það er því á margar hliðar að líta í þessu samhengi.
Skógur í vexti bindur mest
En aftur að rannsókninni. Í frétt SVT er rætt við Matthias Peichl hjá SLU sem tók þátt í rannsókninni. Hann bendir einmitt á að það sé skógur í vexti sem bindi mest kolefni. Niðurstöður mælinga á gjörfelldum skógarsvæðum sýni að rotnun jarðvegs á gjörfelldum svæðum skipti litlu máli í samanburði við þá bindingu sem verður í þeim skógi sem vex aftur upp á viðkomandi svæði. Eftir tíu ár frá gjörfellingunni sé binding skógarins orðin meiri en losun frá jarðvegi og síðan standi skógurinn áfram í um áttatíu ár sem er venjuleg vaxtarlota í sænskum skógi. Allan tímann bindur skógurinn mjög mikið kolefni.
Skógargeirinn í Svíþjóð fagnar tíðindunum sem í þessum rannsóknarniðurstöðum frá SLU felast, enda eru þau í samræmi við bæði viðtekna starfshætti í sænskri skógrækt og þau sjónarmið sem skógargeirinn hefur haldið á loft þar í landi. SVT ræðir við Ola Kårén, yfirmann nytjamála hjá SCA, sem er stærsti skógareigandi á einkamarkaði í Evrópu. Hann segir rannsóknina sýna gildi þess fyrir loftslagsmálin að stunda virkar skógarnytjar eins og stundaðar eru í Svíþjóð.
Rímar við eldri niðurstöður
Rannsóknin fór fram á svæði í Vesturbotni í Norður-Svíþjóð og mælingar voru gerðar þar á fimmtíu skógarsvæðum. Of snemmt er talið að yfirfæra megi niðurstöðurnar á alla barrviðarskóga heimsins. Á það er þó bent að rannsóknin sé í samræmi við eldri rannsóknir. Anders Lindroth, sem einnig vinnur að rannsóknum á kolefnislosun vegna gjörfellingar við háskólann í Lundi, tekur undir það í samtali við SVT. Þessar niðurstöður rími í stórum dráttum vel við fyrri rannsóknir á því hversu lengi gjörfelld svæði losi kolefni eftir skógarhögg. Hann slær þó ákveðna varnagla hvað snertir tiltekin atriði í niðurstöðum rannsóknarinnar í Vesturbotni. Það að kolefnisjafnvægi náist innan tíu ára frá skógarhöggi geti mögulega tengjast því hvernig rannsakendurnir hjá SLU settu niðurstöður sínar fram.
SVT leiðréttir umfjöllun sína
Sjónvarp sænska ríkisútvarpsins, SVT, sendi frá sér nýja umfjöllun 15. desember þar sem áðurnefndur Matthias Peichl segir að ekki beri að túlka niðurstöðurnar þannig að gjörfelling í sjálfri sér sé góð fyrir loftslagið enda var fyrirsögn fréttar SVT breytt 19. desember. Anders Lindroth bendir á að kolefnisjafnvægi sé komið á með nývexti skógar innan tíu ára taki um tuttugu ár í viðbót að binda allt það kolefni sem losnaði við gjörfellinguna. Matthias Peichl tekur fram að meginmarkmið rannsóknarinnar hafi verið að vera innlegg í aukna vitneskju um 200 ára kolefnisbúskap skóganna. Hann viðurkennir þann galla á rannsókninni að ekki skyldu vera gerðar mælingar á svæðum innan fimm ára frá gjörfellingu þegar losunin er mest og að ekki skyldi hafa verið mælt yfir vetrartímann.
Umfjöllun SVT:
- Ny forskning: "Kalyggen släpper inte ut lika mycket klimatpåverkande koldioxid som man tidigare trodde"
- Så här går det till när kalhyggen blir kolsänka
- Kraftig kritik mot fel i SVT:s rapportering – ”Kalhyggen är inte bra för klimatet”