Þann 19. mars n.k. verður haldin málstofa á Hótel Loftleiðum um erfðaauðlindir í landbúnaði. Skipuleggjandi málstofunnar er erfðanefnd landbúnaðarins.

Í kjölfar samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem samþykktur var í Ríó fyrir rúmum áratug, skuldbundu þjóðir heims sig til að vernda og viðhalda erfðaauðlindum, bæði í villtum og ræktuðum tegundum. Litið er á líffræðilega fjölbreytni sem sameiginlega auðlind alls mannkyns en jafnframt er lögð áhersla á umráðarétt þjóða yfir eigin erfðaauðlindum og þar með ábyrgð á verndun þeirra ef þörf krefur. Hefðbundinn landbúnaður hér á landi byggist fyrst og fremst á nýtingu gamalla búfjárkynja. Með aukinni alþjóðavæðingu og opnun markaða er brýnna en oft áður að tryggja varðveislu þessara búfjárkynja. Erfðanefnd landbúnaðarins er ætlað það hlutverk að vinna að varðveislu og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Í starfi sínu á hún ekki eingöngu að sinna búfé heldur einnig nytjajurtum, skógarplöntum og ferskvatnsfiski.

Á málstofunni verður fjallað um stöðu þessa málaflokks hér á landi. Einnig verður gerð grein fyrir því starfi sem unnið er á norrænum og alþjóðlegum vettvangi. Loks verður fjallað um einstök rannsóknarverkefni sem unnin hafa verið í tengslum við erfðabreytileika í dýrum og plöntum. Deginum lýkur með móttöku í boði landbúnaðarráðherra.

Málstofan er tileinkuð Stefáni Aðalsteinssyni, fyrrum sérfræðingi á Rannsóknastofnun landbúnaðarins og fyrsta forstjóra Norræna genbankans fyrir húsdýr í virðingarskyni vegna starfa hans á þessu sviði í áratugi.

Málstofan er öllum opin. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir því að menn skrái sig eigi síðar en 18. mars í síma 591-1500 eða með tölvupósti (anna@rala.is) og tilkynni jafnframt hvort þeir hafi áhuga á því að snæða hádegisverð á Hótel Loftleiðum (< 2000 kr).


Erfðaauðlindir í landbúnaði

Málstofa til heiðurs Stefáni Aðalsteinssyni

Staður : Hótel Loftleiðir, Reykjavík
Dags.:  19. mars 2004

Fundarstjóri: Þorsteinn Tómasson
09.15 Ávarp
 Björn Sigurbjörnsson
09.25 Sérstaða íslenskra húsdýra
 Stefán Aðalsteinsson
10.00 Kaffi

Staða málaflokksins á Íslandi
10.20 Búfé
 Emma Eyþórsdóttir, Jón Viðar Jónmundsson, Ólafur R. Dýrmundsson
10.40 Ræktarplöntur
 Áslaug Helgadóttir, Þorsteinn Tómasson, Hólmgeir Björnsson
11.00 Skógartré
 Aðalsteinn Sigurgeirsson, Þröstur Eysteinsson
11.20 Ferskvatnsfiskar
 Guðni Guðbergsson
11.40 Umræður
12.00 Hádegisverður

Af norrænum og alþjóðlegum vettvangi
13.00 Búfé
 Erling Fimland, forstjóri Norræna genbankans fyrir húsdýr
13.30 Ræktarplöntur
 Bent Skovmand, forstjóri Norræna genbankans fyrir nytjaplöntur
14.00 Skógartré
 Þröstur Eysteinsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson
14.30 Kaffi

Rannsóknir á erfðaauðlindum
14.45 Áhrif fiskeldis á erfðabreytileika í þorski í Norður-Atlantshafi
 Christophe Pampoulie
14.05 Skyldleiki íslenskra búfjárkynja við norræn kyn
 Emma Eyþórsdóttir
15.25 Erfðabreytileiki íslenska birkisins
Ægir Þór Þórsson, Kesara Anamthawat-Jonsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Þröstur Eysteinsson
15.45 Saga gulrófunnar á Íslandi
 Jónatan Hermannsson
16.05 Umræður

16.30 Móttaka í boði landbúnaðarráðherra