Hvernig getur fámenn þjóð tekist á við plöntukynbætur?
Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands boða til málþings föstudaginn 4. apríl kl. 9:30-16:30 og er það haldið í fundarsal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1 (gengið inn frá horni við Ármúla).
Markmið málþingsins er að vekja áhuga ræktunarfólks á plöntum sem ætlaðar eru til yndis og nytja og eru markvisst aðlagaðar fyrir íslenskar aðstæður með kynbótum. Á málþinginu verður fjallað um reynslu sem þegar er fengin af plöntukynbótum á Íslandi og hugað að framtíðarmöguleikum hérlendis fyrir garðyrkju og skógrækt. Hér er einstakt tækifæri fyrir allt áhugafólk um framfarir í plöntuúrvali að kynna sér hvaða leiðir eru færar til kynbóta og læra af reynslu annarra.
Í upphafi málþingsins flytur kanadíski grasafræðingurinn Claire Laberge erindi um sögu kynbóta og framfara í ræktun yndisplantna í Kanada á síðustu öld. Reynsla Kanadamanna af kynbótum á garðrósum og ávaxtatrjám fyrir mjög erfið ræktunarskilyrði á gresjum Kanada getur verið okkur fyrirmynd og hvatning því þar hafa orðið gífurlegar framfarir á síðustu áratugum. Hafa Íslendingar þegar notið árangurs af því starfi, ekki síst í rósarækt, þótt ræktunarskilyrði séu hér að mörgu leyti allt önnur og kalli á eigin tilraunir til aðlögunar á eftirsóknarverðum tegundum. Á ráðstefnunni verður fjallað um reynslu úr kynbótaverkefnum hérlendis á vegum einstaklinga og stofnana sem vísað geta veginn fram á við.
Meðal spurninga sem teknar verða til umræðu er hvernig svo fámenn þjóð getur með skipulegum og hagkvæmum hætti tekist á við tímafrek langtímaverkefni sem plöntukynbætur eru. Velt verður upp möguleikum á samvinnu áhugafólks og samtaka þeirra við opinberar fagstofnanir sem veitt geta leiðsögn og haldið utan um þekkingu sem safnast og miðlað henni til framtíðar.
Mæting og afhending gagna á málþinginu hefst kl. 9:30 en þingið verður sett kl. 10:00 og stendur til kl. 16:30. Þátttökugjald er kr. 6.900 fyrir félagsmenn í Garðyrkjufélaginu, skógræktarfélögum og nema í Landbúnaðarháskóla Íslands gegn framvísun skírteinis, en kr. 9.900 fyrir aðra. Skráning er á netfang Garðyrkjufélagsins: gardurinn@gardurinn.is.
Dagskrá
Fundarstjóri: Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
09:30 – 10:00 |
Mæting og afhending gagna |
10:00 – 10:05 |
Setning.
Þuríður Backman, formaður Garðyrkjufélags Íslands |
10:05 – 10:15 |
Til hvers kynbætur á garðplöntum á Íslandi?
Vilhjálmur Lúðvíksson |
10:15 – 11:00 |
Overview of the Prairie Fruit Breeding Program and the Rose Breeding Program in Canada.
The Objectives and Visions for the Future.
Claire Laberge, grasafræðingur við Grasagarðinn í Montreal |
11:00 – 11:25 |
Aðferðafræði við trjákynbætur á Íslandi.
Aðalsteinn Sigurgeirsson |
11:25 – 11:40 |
Kynbætur á alaskaösp.
Halldór Sverrisson |
11:40 – 12:00 |
Prófanir á lerkinu ´Hrym´. Hlutverk áhugamanna við prófanir á kynbættum efniviði.
Bergþóra Jónsdóttir og Þröstur Eysteinsson |
12:00 – 13:00 |
Hádegisverður |
13:00 – 13:30 |
Kynbætur á birki - Fyrirmynd að aðkomu áhugafólks.
Þorsteinn Tómasson |
13:30 – 13:50 |
Trjáræktarklúbburinn – Tegundir og yrki til prófunar á Íslandi- Reynsla af félagsstarfi.
Eggert Aðalsteinsson |
13:50 – 14:10 |
Yfirlit yfir plöntuefnivið sem til er í landinu.
Hjörtur Þorbjörnsson |
14:10 – 14:25 |
Íslensk jarðarber – kortlagning uppruna og eiginleika.
Hrannar Smári Hilmarsson |
14:25 – 14:50 |
Nýi fjallaþinurinn - kynbótaverkefni.
Brynjar Skúlason |
14:50 – 15:10 |
Kaffihlé |
15:10 – 15:30 |
Kynbætur á rósum - reynsla og vegvísir til framtíðar.
Jóhann Pálsson |
15:30 – 15:45 |
Reynslusaga af kornkynbótum. Er hægt að yfirfæra hana yfir á aðrar tegundir?
Jónatan Hermannsson |
15:45 – 16:00 |
Samantekt og framtíðarsýn um plöntukynbætur á Íslandi.
Guðríður Helgadóttir |
16:00 – 16:30 |
Umræður og fyrirspurnir |
16:30 |
Þinglok |