Um þessar mundir fer fram víða um land mat á skemmdum á trjágróðri af völdum þess vorhrets sem gekk yfir landið um mánaðarmótin apríl-maí s.l. og sem kallað hefur verið ?kosningahretið?. Einkum er leitast við að meta skemmdir í þeim fjölmörgu samanburðartilraunum með tegundir, kvæmi og klóna trjátegunda sem lagðar hafa verið út á vegum Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá undanfarinn áratug. Mestu skemmdirnar af völdum þessa hrets virðast bundnar við rússa- og síberíulerki á Fljótsdalshéraði, en þar virðist lerki hafa farið í ?sumardvala? í kjölfar hretsins. Í öðrum landshlutum virðast skemmdir fremur staðbundnar og oftast mestar á flötu og vel grónu landi þar sem næturfrost samfara kuldakastinu urðu mest.

Á meðfylgjandi mynd má sjá merki um alvarlegar skemmdir á trjágróðri á flötu mýrlendi í Mosfelli í Grímsnesi.  Þar hefur frostið greinilega orðið mikið næst jörðu, sem marka má af því að innlendur gulvíðir og fjalldrapi hefur skemmst engu síður en grenitrén. Engu að síður er einstaklingsbreytileiki mikill og má sjá græn og alheilbrigð grenitré og gulvíðirunna við hlið illa leikinna og jafnvel dauðra trjáa sömu tegunda.

Aðalsteinn Sigurgeirsson