Sherry Lynne Curl heldur fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt „Áætlanagerð og rekstur íslenskra skóga í þágu útivistar" föstudaginn 17. október kl. 14:00 í Ársal í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskólans, Hvanneyri. Hægt verður að fylgjast með fyrirlestrinum í beinni útsendingu á netinu með því að ýta hér þegar fyrirlesturinn hefst.

Í ritgerðinni fjallaði Sherry um uppbyggingu á aðstöðu og meðferð íslenskra skóga í þágu útivistar. Hún gerði skoðanakönnun á dagdvalarsvæðum og tjaldsvæðum fjögurra íslenska skóga. Þetta voru dagdvalarsvæðin (útivistarsvæðin) Heiðmörk við Reykjavík og Kjarnaskógur við Akureyri og tjaldsvæðin Vaglaskógur í Fnjóskadal og Hallormsstaðarskógur á Fljótsdalshéraði. Hún kannaði hvers vegna fólk notaði þessa staði til útivistar og hvaða væntingar fólk gerði sér um aðstöðu þeirra. Hún athugaði sérstaklega hvort marktækur munur væri á svörum notenda eftir þremur fyrirfram ákveðnum flokkum: Félagshópum, gerð skóga eða tegund nýtingar. Lítill munur reyndist vera á milli félagshópa eða á milli skógargerða. Mestur var munurinn á notkun og á væntingum notenda þegar útivist yfir daginn var borin saman við útilegu á tjaldsvæðum. Í niðurstöðunum kom glöggt fram hvaða ávinning fólk taldi sig fá við dvöl á skógivöxnum dagdvalar- og tjaldstæðum og hvaða væntingar það hafði um aðstöðu í mismunandi útivistarskógum. Niðurstöðurnar notaði Sherry til þróunar á svæðisskiptingu og nýtingaráætlunum fyrir íslenska útivistarskóga. Í MS ritgerðinni gerði hún auk þess mikilvægis- og frammistöðumat á einstökum þáttum til að veita skipuleggjendum og umsjónaraðilum útivistarskóga innsýn í væntingar fólks varðandi skógana.

Leiðbeinendur og meistaranefnd:
Dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, aðalleiðbeinandi
Dr. Paul Roscoe, prófessor við Climate Change Institute, Mannfræðideild Háskólans í Maine, USA.

Prófdómari:
Dr. Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.