Nú þegar ríkisstjórnin hefur lagt fram breytt fjárlög næsta árs er ljóst að mikill niðurskurður er fyrirsjáanlegur á framlögum til skógræktarmála. Sem dæmi má nefna að í fyrsta fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir að framlag til landshlutaverkefnanna í skógrækt yrði um 560 milljónir króna, en það hefur nú verið skorið niður um fimmtung, eða tæplega 112 milljónir króna. Sömu sögu er að segja af verkefnunum Landgræðsluskógum og Hekluskógum.

Meginútgjöld skógræktarverkefna enda sem laun til bænda fyrir gróðursetningu, til starfsfólks gróðrarstöðva, til fólks sem sér um flutning á plöntum, til fólks sem sér um girðingarvinnu og ýmislegt fleira sem skógrækt hefur í för með sér. Kostnaður við nýskógrækt felst að yfirgnæfandi hluta í innlendum launakostnaði en að sáralitlum hluta í innfluttum aðföngum. Skógrækt er afar atvinnuskapandi, en jafnframt gjaldeyrissparandi, þegar til lengri og skemmri tíma er litið. Verðmætasköpun með skógrækt felst í framleiðslu efnislegra verðmæta á borð við timburafurðir en einnig í margháttuðum umhverfisgæðum fyrir land, þjóð og lífríki, svo sem með þeirri jarðvegsvernd, skjóli, bættri vatnsmiðlun og þeirri kolefnisbindingu sem skógarnir skapa. Hlutverk skógræktar felst ekki síst í því að treysta félagsauð í landinu, með því að skapa fólki tækifæri til útivistar og hreyfingar í skógum landsmanna og með virkri þáttöku landsmanna í skógræktarfélögum.

Fólk sem hefur tekjur sínar af skógrækt starfar einkum á landsbyggðinni og mun niðurskurðurinn því einkum bitna á dreifbýlisbúum. Nú þegar hefur verið gengið frá samningum um kaup á milljónum plantna og ekki er fyrirséð hver örlög þeirra verða ef enginn er til að gróðursetja þær. Skógrækt hefur þroskast svo undanfarna tvo áratugi að ekki verður lengur stólað á sjálfboðaliða eingöngu.

Af þessu tilefni sendir Skógrækt ríkisins frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Skógrækt ríkisins harmar þennan mikla niðurskurð á framlögum til nýskógræktar í landinu. Mikilvægt er að um leið og aðstæður í þjóðfélaginu leyfa verði skógrækt efld á nýjan leik. Verðmæti skóganna eru í senn hagræn, vistfræðileg og félagsleg. Íslendingar nota jafn mikið af skógarafurðum og aðrar þjóðir með sambærilegan efnahag. Munurinn liggur hins vegar í því að landið er að mestu skóglaust og hér eru næstum allar viðarafurðir fluttar inn, því ekki er mögulegt að mæta allri eftirspurninni með þeirri mjög svo takmörkuðu skógarauðlind sem við eigum núna. Afurðir skóganna eru notaðar í fjölþættum tilgangi, m.a. í atvinnugreinum á borð við byggingariðnað, fiskvinnslu, landbúnað og ýmis konar iðnaðarframleiðslu, t.d. á járnblendi. Mörg fyrirtæki hér á landi, stór og smá, nýta trjávið sem hráefni í framleiðslu sína. Skógurinn er jafnframt athvarf fyrir fólk sem vill njóta útivistar og hreyfingar í skjóli skóganna og komast þar í snertingu við náttúru og heilbrigt umhverfi, og er aðgangur að slíkum skógum ekki síst verðmætur á tímum fjöldaatvinnuleysis. Á sama tíma binda skógar Íslands drjúgan hluta af árlegri losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundundum og hefur það hlutfall farið vaxandi með aukinni nýskógrækt undanfarna tvo áratugi.

 

Þær aðstæður sem nú ríkja varpa ljósi á þá staðreynd að okkur er nauðsyn að eiga okkar eigin skógarauðlindir. Mikilvægt er að þjóðin hafi möguleika á að grípa til skógarauðlinda sinna þegar svona árar, því aðstæður sem þessar hafa komið upp áður og þær munu koma aftur. Niðurskurður á framlögum til skógræktar mun samtímis koma í veg fyrir að fjölþætt efnisleg gæði skóganna verði að veruleika hér á landi, draga úr getu Íslands til þess að mæta alþjóðlegum skuldbindingum í umhverfismálum, auka atvinnuleysið og dýpka kreppuna, og draga úr þeim lífsgæðum sem landsmenn gætu notið í skógum framtíðarinnar. Skógrækt ríkisins mælir eindregið með því að fjárframlög til nýskógræktar verði ekki skorin niður heldur aukin og að stjórnvöld beiti sér fyrir því að stækka skógarauðlindir okkar verulega.